Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir neyðaraðstoð, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. En mat manna er að ástandið sé með slíkum hætti að það tæki afar skamman tíma að útbúa björgunarpakka kæmi kallið. Sá tími er talinn í nokkrum dögum. Ónafngreindur embættismaður í stofnuninni bendir hins vegar á að fái íslensk stjórnvöld lán frá Rússum þá kynni það að flækja meðferð málsins sökum pólitískra þátta, sem í orði eiga ekki skipta máli í starfi sjóðsins en gera það þó á borði.

Þess bera að geta að algjör trúnaður myndi ríkja innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um beiðni stjórnvalda um neyðaraðstoð á meðan á meðferð málsins stæði. Þegar ríki leita eftir neyðaraðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er algengast að þau leggi samfara því fram tillögur um hvernig nýta megi lánafyrirgreiðslu frá sjóðnum til þess að yfirstíga þann vanda sem við er að etja. Síðan er farið yfir málið í sjóðnum og í kjölfarið á því er svo samið við viðkomandi stjórnvöld um endanlega útfærslu og þau skilyrði sem fylgja neyðaraðstoðinni.

Margir halda að þegar stjórnvöld frá hagkerfi í neyð hrökklast til Washingtonborgar og leiti eftir hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá taki embættismenn hans við hagstjórn viðkomandi ríkis. Þetta eru miklar ýkjur þar sem samið er um endanlegar útfærslur þeirra kvaða sem hvíla á láninu. Þó má ljóst vera að samningsstaða þeirra ríkja sem sækjast eftir neyðarláni er afar veik – og nánast engin komi embættismenn stjórnvalda til samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðsinn án þess að leggja fram sínar eigin tillögur.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .