Ísland hefur nú þegar fengið skrifleg vilyrði um stuðning við framboð sitt til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá fleiri en hundrað af 192 aðildarríkjum SÞ. Þetta kom fram í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra á Alþingi í dag. Alls 2/3 hluta atkvæða þarf til að ná kjöri.

Nú fara fram umræður um utanríkismál á Alþingi. Fram kom m.a. í ræðu ráðherra að kostnaður við framboðið til öryggisráðsins næmi um 250 til 300 milljónum króna frá árinu 2001. Ráðherra sagði að Íslendingar myndu ekki ástunda fjáraustur á lokasprettinum.

Hún sagði enn fremur að Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, yrði áheyrnarfulltrúi Íslands í Afríkusambandinu. Hún sagði að þetta myndi m.a. gagnast Íslandi í framboði sínu til öryggisráðsins.