Framleiðni vinnuafls á Íslandi dróst saman um 1,2% á árunum 2009-2014 samkvæmt tölum OECD. Á sama tíma jókst framleiðnin í öllum öðrum löndum V-Evrópu, N-Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum.

Framleiðni vinnuafls á Íslandi hefur löngum verið minni en í öllum nágrannalöndum okkar. Tölur OECD benda til þess að Ísland hafi rekið lestina meðal þessara landa hvað varðar framleiðni vinnuafls á hverju einasta ári síðan 1988.

20 þúsund krónur á dag

Á undanförnum áratugum hafa hagkerfi heimsins tekið stórum breytingum. Tækniframfarir og breyttir framleiðsluhættir hafa gert fólki um allan heim kleift að framleiða meiri verðmæti á sífellt styttri tíma. Framleiðni hefur þannig aukist mikið og er framleiðniaukning augljóslega ein af helstu skýringunum fyrir bættum lífsgæðum mannkyns þegar til lengri tíma er litið.

Framleiðni vinnuafls er reiknuð með því að deila vergri landsframleiðslu með heildarfjölda vinnustunda. Árið 2014 framleiddu Íslendingar verðmæti fyrir 43,5 dollara á hverja vinnustund miðað við verðlag í Bandaríkjunum, jafnvirði um 6.500 króna miðað við verðlag á Íslandi.

Meðaltal nágrannalandanna var hins vegar tæpir 64 dollarar á hverja vinnustund, jafnvirði rúmlega 9.000 króna miðað við verðlag á Íslandi. Munurinn er hátt í 3.000 krónur á hverja vinnustund, eða yfir 20.000 krónur á hverjum einasta átta tíma vinnudegi.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .