*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 27. júlí 2019 19:01

Ísland heppilegur markaðskimi

Prófessor í frumkvöðlafræðum við aldagamlan háskóla segir Íslendinga búa vel að afmörkuðum markaði fyrir nýsköpun.

Höskuldur Marselíusarson
Babson viðskiptaháskólinn sem Jay Rao kennir við hefur starfað í meira en öld í fallegu umhverfi innan um græn og bleik tré í uppsveitum Massachussets.
Höskuldur Marselíusarson

Jay Rao, prófessor i frumkvöðlafræðum við hinn 100 ára gamla Babson viðskiptaháskóla í Massachussets í Bandaríkjunum segir það sjaldgæft að nýsköpunarlausnir fari beint inn á mjög stóra markaði. Blaðamaður fékk tækifæri til að heimsækja skólann og sitja námskeið hjá honum sem hluta af námskeiði Magnúsar Orra Schram í frumkvöðlafræði fyrir MBA nema við HR, í vor.

Að hans mati búa Íslendingar vel að því að vera með afmarkaðan markað sem geti þannig verið góður stökkpallur fyrir nýsköpunarfyrirtæki út á stærri markaði. Hann bendir á að flestir sem læra að skala nýsköpunarfyrirtæki upp í góðar stærðir hafi starfað í stærri fyrirtækjum lengi.

„Flestöll nýsköpun verður til á mjög smáum mörkuðum og þaðan vex hún. Það er frábært að byrja með fyrirtæki og lausnir í afmörkuðum markaðskimum, og vaxa smám saman út frá þeim. Sérstaklega á það við ef þú hefur ekki aðgang að miklu fjármagni eins og í Sílikondalnum, en 99,83% fyrirtækja í heiminum eru fjármögnuð af fjölskyldu, vinum og síðan kreditkortum,“ segir Rao sem segir ímyndina um unga frumkvöðulinn villandi.

„Mest af þeim hæfileikum sem læra þarf til að skala upp fyrirtæki og stækka öðlast fólk með því að starfa fyrir stórfyrirtæki, margir bestu skölunarfrumkvöðlarnir eru því ekki mjög ungir heldur hafa öðlast reynslu þar en fara svo og stofna eigin fyrirtæki þegar tækifæri gefst til. Við notum hugtakið að reima á sig skóna, það er að hella sér í að byrja á hlutunum, þó það sé með takmörkuðum auðlindum og fjármagni. Bæta síðan smátt og smátt við, draga að sér auknar auðlindir og vaxa.

Þannig hreyfir heimurinn sig í raun, en fyrir fimmtán, tuttugu árum var Wall Street að predika fyrir fyrirtækjum að taka ótrúlega mikið af lánum, vera gríðarlega skuldsett og vaxa þannig gríðarhratt, á grunni annarra manna fjármagns. En svo kom auðvitað undirmálslánakrísan og þá voru þeir sem hlýddu þessum ráðum ófærir um að lifa af, því þeir gátu ekki endurgreitt lánin. Það þarf nefnilega engan snilling til að halda áfram að fá lánaðar gríðarlegar fjárhæðir út í það óendanlega og vaxa þannig á miklum hraða. Það verður bara að vandamáli einhvers annars þegar loks er rekist á veggi raunveruleikans.“

Skólinn er sjálfur markaðskimi

„Ég er upprunalega frá Indlandi en hef búið í 31 ár í Bandaríkjunum. Mér tókst ekki að verða verkfræðingur, né heldur stærðfræðingur. Faðir minn sem var merkur verkfræðingur sagði þá við mig: „Hvaða vitleysingur sem er getur verið stjórnandi“ – svo ég fór að læra stjórnun,“ segir Jay Rao prófessor við Babson viðskiptaháskólann.

„Íslendingar sem vilja læra meira um frumkvöðlastarfsemi eru velkomnir hingað til okkar í Babson, það er stutt og ódýrt flug beint hingað. Babson viðskiptaháskólinn höfðar til smárra fyrirtækja, sem byrja með takmarkaðar auðlindir og við hjálpum fólki að hugsa og skilja hvernig eigi að skala upp starfsemi þeirra, ekki á hraða eldingar heldur samkvæmt skýrri og hnitmiðaðri aðferð á ákveðinn og agaðan hátt.

Fjölmörg traust fyrirtæki hafa komið úr Babson, en bæði forstjóri Toyota og margir synir Ford komu hingað. Síðan má nefna að Home Depot og Ring eru rekin af nemendum úr Babson. Gamla barnamatarfyrirtækið Gerber var stofnað af Babson-nemanda, og auk þess má nefna nýrri fyrirtæki eins og Big Belly Solar. Við í Babson erum sjálfir markaðskimi, skólinn er lítið fyrirtæki sem segja má að starfi eins og api í heimi górilla eins og Harvard, MIT og Stanford. En með því að finna okkar sértöku hillu höfum við lifað af í 100 ár, því við einblínum alveg sérstaklega á að búa til leiðtoga í nýsköpun, sem geta komið hlutum í verk með takmörkuðum auðlindum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.