*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 1. júlí 2021 18:32

Ísland hluti af alþjóðlega skattagólfinu

Áætlað er að samkomulag 130 ríkja um breytt alþjóðlegt skattaumhverfi skili 250 milljörðum dala í skattheimtu árlega.

Ritstjórn
Rishi Sunak og Janet Yellen, fjármálaráðherrar Bretlands og Bandaríkjanna, þegar G7 ríkin skrifuðu undir samkomulagið í byrjun júní.
epa

Í dag náðist samkomulag meðal 130 þjóða, sem saman vega um 90% af VLF heims, um að fyrirtækjaskattar verði að lágmarki 15% á heimsvísu. Ísland var meðal þeirra ríkja sem skrifuðu undir samninginn hjá OECD í París. 

Stefnt er að því að ganga frá reglunum á næsta ári og að þær verði innleiddar árið 2023. Áætlað er að breytta regluverkið um skattagólf tryggi 150 milljarða dala í aukna skattheimtu á hverju ári. Með samkomulaginu geta þjóðir einnig skattlagt 20% hagnaðar hjá stærstu og arðbærustu fjölþjóðafyrirtækjum heims með yfir 10% hagnaðarframlegð en áætlað er að síðarnefnda aðgerðin skili 100 milljörðum dala árlega til viðbótar.  

Í tilkynningu OECD segir að markmið samkomulagsins sé að tryggja að fjölþjóðafyrirtæki greiði skatta þar sem þau starfa og skila hagnaði ásamt því að koma á stöðugleika og draga úr óvissu í kringum alþjóðlega skattaumhverfið. 

Einungis níu af þeim 139 þjóðum sem tóku þátt í viðræðunum skrifuðu ekki undir samninginn, þar á meðal Írland, Eistland og Ungverjaland. 

Mathias Cormann, aðalritari OECD, segir að samkomulagið tryggi að stór alþjóðleg fyrirtæki greiði sanngjarnan hlut í skatta á hverjum stað. Hann bætti þó við að samningurinn komi ekki í veg fyrir skattasamkeppni. 

„Þessi pakki kemur ekki í veg fyrir skattasamkeppni [...] en hann setur marghliða umsamin takmörk á hana. Einnig tryggir hann hagsmuni ýmissa aðila sem komu að viðræðunum, þar á meðal smárra hagkerfa og þróunarlanda,“ er haft eftir Cormann í frétt Financial Times

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að alþjóðlega skattagólfið komi í veg fyrir fjölþjóðafyrirtæki etji þjóðir gegn hver öðrum til þess að lækka skatta og vernda hagnað á kostnað opinberra tekna.