Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands verður haldið 8. febrúar n.k. undir yfirskriftinni 15% landið Ísland og verður á þinginu gefin út skýrsla sem fjallar um áhrif og kosti þess að lækka hér skatta verulega með það að markmiði m.a að gera Ísland álitlegan kost fyrir höfuðstöðvar bæði íslenskra og erlendra fyrirtækja.

Lítil hagkerfi eins og Ísland hafa oft ekki upp á mikið að bjóða fyrir alþjóðlega starfsemi. Skiptir þar mestu að framleiðslugetan stenst ekki samanburð við það sem þekkist hjá stærri þjóðum.

Í skýrslu til Viðskiptaþings er sérstaklega fjallað um hvað það er sem gæti hugsanlega laðað að erlenda starfsemi hingað til lands og um leið tryggt að þau fjölmörgu íslensku fyrirtæki sem nú þegar afla meirihluta tekna sinna erlendis kjósi að halda höfuðstöðvum sínum hér á landi.