Það er ekki ofsögum sagt að augu eða að minnsta kosti annað auga fjármálheimsins stari þessa dagana á Ísland, ekki vegna þess hversu gífurlega mikla vigt landið hefur á alþjóðavísu heldur vegna hins að Ísland virðist öðrum þræði vera að öðlast sess í hugum manna sem holdgervingur svokallaðra nýmarkaðslanda með miklar erlendar skuldir, mikinn viðskiptahalla, mikla verðbólgu og himinháa stýrivexti - lands í útjaðri Evrópu sem í efnahags- og fjármálalegum skilningi er hugsanlega komið með tærnar alveg fram á ystu nöf; steypist það fram af muni fleiri nýmarkaðslönd líklega fylgja í kjölfarið.

Sem sagt: Ísland er kanarífuglinn í norðri sem allra augu beinast að.

Það má væntanlega einu gilda hvort mönnum þyki samlíkingin út í hött eða ekki, um þetta skrifa erlendir fjölmiðlar í löngu máli. Í gær meðal annarra The Wall Street Journal, The Daily Telegraph og Dow Jones.

Lifað langt um efni fram

„Fari Ísland á hliðina fara Eystrasaltslöndin, lönd á Balkanskaganum, Ungverjaland, Tyrkland og hugsanlega Suður-Afríka líka á hliðina," segir í fréttaskýringu The Daily Telegraph.

„Öll lifa þau langt um efni fram og stoppa í viðskiptahallagötin með óreglulegu innflæði af erlendu fjármagni. Öll hafa hafa látið skuldasöfnunina fara langt fram úr öruggum „hraðatakmörkunum", sum um meira en 50% á ári."

„Ísland er meira en bara norrænn vogunarrsjóður sem dulbýr sig sem land. Það er líka hið fyrsta af skuldsettu löndunum sem þarf að þola flótta fjárfesta sem er eins og snemmsent viðvörunarmerki um hgsanlega erfiðleika í stórum hluta Austur-Evrópu og við Miðjarðarhafið," segir í The Daily Telegraph.

---------------------------------------------------------

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .