Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, kynnti í dag nýtt frammistöðumat sitt á hve hratt gengur fyrir EES aðildarríkin innan EFTA að innleiða gerðir og tilskipanir Evrópusambandsins inn í löggjöf sína.

Sérstök áhersla er lögð á það í matinu hve hratt gengur að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins, en íslensk stjórnvöld hafa meira svigrúm til að ákveða hvernig markmiðum þeirra er náð með útfærslum í löggjöf heldur en reglugerðirnar sjálfar sem taka verður beint upp í íslenskan rétt.

Ísland tekur tilskipanirnar enn hægast upp

Samkvæmt mati stofnunarinnar er Ísland eina EES ríkið sem hefur bætt frammistöðu sína á mælingartímanum sem er frá maí á síðasta ári. Hefur svokallaður innleiðingarhalli, það er hve margar af tilskipunum sambandsins hafa verið innleiddar í íslenska löggjöf, minnkað mikið, þó Ísland sé í neðsta sæti á lista stofnunarinnar yfir EES ríkin þrjú í því hve áfjáð ríkin er að innleiða reglugerðirnar.

Norðmenn og Liechtenstein draga úr hraða upptöku tilskipana

Samkvæmt tilkynningu á vef stjórnarráðsins er þessi innleiðingarhalli nú 1,8% en í maí var hann 2,2%. Í þessum 1,8% felst að 15 tilskipanir Evrópusambandsins hafa ekki verið innleiddar að fullu samkvæmt tímaáætlunum stofnunarinnar. Það þýðir að í heild hljóta að hafa borist um 833 tilskipanir frá Evrópusambandinu sem skilgreindar eru þannig að þær falli innan innra markaðarins sem EES samningurinn færir Íslandi aðild að.

Á sama mælingartíma hafa bæði Norðmenn Liechtenstein dregið úr því að flýta sér að innleiða tilskipanir sambandsins. Í Noregi hefur innleiðingarhallinn aukist frá síðasta frammistöðumati úr 0,2% í 0,5%, en í Liecthenstein fór hallinn úr 1,2% í 1,3%.
ESB og ESA hafa haft það að markmiði frá árinu 2011 að aðildarríkin haldi innleiðingarhallanum undir 0,5%.