Velsældarvísitala bresku hugveitunnar Legatum Institute kom út á mánudag, en hún tekur saman alls kyns gögn um ríki heims til þess að reikna þessa vísitölu út. Þar má finna samandregnar staðreyndir um velsæld í 167 ríkjum heims, þar sem um 99,4% mannkyns eiga heima.

Hugmyndin er sú að þar megi á auðveldan hátt bera saman stöðu ríkja, en þó er markmiðið ekki síður hitt, að gefa ríkisstjórnum, fræðaheimi og almenningi færi á að sjá í hendi sér hvernig staðan er, að hvaða leyti ástandið er gott og þó fyrst og fremst hvar er mest ástæða til þess að bæta sig. Hér er þó ekki aðeins horft til harðra efnahagsstærða eins og landsframleiðslu, heldur til margvíslegra þátta annarra, sem þó skipta miklu máli í mannlegri velsæld, svo sem réttinda minnihlutahópa, náttúrugæða, menntunar, félagslegs hreyfanleika og ótal margs annars, sem síðan var gefið vægi til þess að reikna út velsældarvísitöluna.

Þar að baki búa um 300 mælanlegar staðreyndir um hina ýmsu þætti mannlegs samfélags, sem síðan eru dregnir saman í 65 málaflokka, en þeir svo teknir saman í 12 stoðir í þremur meginþáttum —  samfélagi, opnu efnahagslífi og valdeflingu fólksins —  til þess að glöggva sig á stöðunni og þróuninni síðan stofnunin hóf að reikna út vísitöluna árið 2007.

Meginniðurstöður velsældarvísitölunnar fyrir 2019 eru þessar helstar:

  • Velsæld á heimsvísu heldur áfram að aukast, en á hinn bóginn dregur eilítið í sundur með þeim ríkjum þar sem ástandið er best og hinum þar sem það er síðra. » Aukna velsæld má einkum rekja til opnara efnahagslífs og betri lífsgæða einstaklinga.
  • Efnahagskerfin eru opnari en áður, einkum vegna umbóta í fjárfestingarumhverfi, netvæðingar og léttbærari stjórnsýslu.
  • Lífsgæði einstaklinga hafa batnað í takt við bætt heilsufar, aukna menntun og lífsskilyrði.
  • Staðnaðar stofnanir eru helsti dragbíturinn á frekari velsæld.
  • Almenningur er umburðarlyndari en áður, þrátt fyrir að nokkuð hafi dregið úr málfrelsi, fundaog félagafrelsi á heimsvísu.

Bilið eykst

Almennt er velsæld í heiminum meiri en nokkru sinni fyrr, en Danmörk velti Noregi úr efsta sæti listans í ár. Þrátt fyrir að efstu ríki listans komi öll úr Vestur-Evrópu, þá er Norður-Ameríka samt sem áður það heimssvæði, þar sem velsæld er mest. Ástæðan er sú að í Vestur-Evrópu er einnig talsvert af ríkjum, sem standa sig mun síður en grannar þeirra í norðvestanverðri álfunni. Hins vegar hefur velsældarsóknin í Norður-Ameríku hægt verulega á sér, svo tala má um stöðnun, þannig að Vestur-Evrópa er komin fast upp að ríkjunum í Vesturheimi.

Af ríkjunum 167, sem velsældarvísitalan nær til, hafa 148 þeirra (með 88% mannkyns) náð aukinni velsæld frá 2009. Þau ríki, sem náð hafa mestum framförum á þessum árum, eiga þó enn töluvert í land hvað almenna velsæld áhrærir. Þar eru lönd eins og Búrma (124.), Tógó (144.) og Kirgistan (88.), sem öll eiga við margvísilegan innri vanda að glíma, suman mjög alvarlegan.

Tölur Legatum-stofnunarinnar sýna þó að þrátt fyrir það, þá eiga þau sér viðreisnar von, sem gefur fyrirheit um framtíðina. Öll heimssvæðin bæta stöðu sína. Austur-Asía og Kyrrahaf náðu mestum framförum á undanförnum áratug, en þar voru framfarirnar mestar í velsældarstoðunum 12, sem Legatum skilgreinir, þar á meðal í öllum efnahagsstoðunum fjórum. Þessi mikla velsældarsókn þar eystra hefur gert það að verkum að velsæld þar jafnast nú á við þá sem þjóðir Rómönsku-Ameríku njóta.

Það er þó ekki svo að allar þjóðir heims hafi öðlast aukna velsæld. 19 ríkjum hefur beinlínis hrakað að því leyti á umliðnum áratug. 15 af þessum ríkjum eru í Afríku eða Miðausturlöndum. Sýrland (157.), Jemen (166.) og Venesúela (143.) eru þau ríki sem mest hafa fallið á þessum tíu árum. Öll hafa þau búið við stríð eða harðstjórn. Af vestrænum ríkjum er Ástralía hið eina, þar sem velsæld hefur minnkað frá 2009, ekki mikið þó. Velsæld í þeim ríkjum, sem best standa, hefur yfirleitt aukist meira en í hinum ríkjunum, sem síður standa og hafa ekki á sama grunni að byggja. Fyrir vikið hefur bilið milli þeirra sem best standa og hinna aukist nokkuð á þessu tímabili, en segja má að þau 40 ríki, þar sem velsæld er mest, skeri sig nokkuð frá hinum.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .