Ísland er í 11. sæti í samkeppnisvísitölu ferðaþjónustunnar (e. Travel and Tourism Competitiveness Index) sem gefin er út af Alþjóðaefnahagsráðinu (e. World Economic Forum, WEF). Ísland fellur niður um sjö sæti en í fyrra var Ísland í fjórða sæti.

Sviss er í efsta sæti listans með einkunnina 5,63 en þar á eftir koma Austurríki með 5,43 og Þýskaland með 5,41.

Ástralía, Spánn, Bretland, Bandaríkin, Svíþjóð, Kanada og Frakkland koma þar á eftir í tíu efstu sætin en Ísland sem fyrr segir í því ellefta.

Eins og fram kemur á vefsíðu WEF eru breyttar forsendur fyrir samsetningu vísitölunnar en það orsakar að einhverju leyti lækkun Íslands á listanum. Í ár er meira tillit tekið til verðlags, þekktra dýrategunda og menningarstaða svo dæmi séu nefnd.

Vísitölunni er skipt upp í þrjá meginflokka, Reglugerð laga og öryggi ferðamanna, viðskiptaumhverfi og mannlegar, náttúrulegar og menningarlegar auðlindir. Þessir þrír flokkar eru síðan tíundaðir niður eftir atvikum.

Ferðamenn öruggir hér á landi

Ísland kemur vel út í þeim flokk sem mælir reglugerð laga sem og öryggi ferðamanna en þar er landið í þriðja sæti.

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu skorar hátt sem og öryggi ferðamanna. Lítið eignarhald erlendra aðila dregur Ísland niður í þessum flokki en fram kemur í skýrslunni að erfitt sé fyrir erlenda aðila að stofna hér fyrirtæki.

Bensínið dýrt

Ísland er í níunda sæti í þeim flokk sem mælir viðskiptaumhverfi en þar er Ísland í níunda sæti. Þar er einnig mældir möguleikar á samskiptatækni en þar skorar landið hátt en fram kemur að aðgangur að síma og interneti er mjög góður hér á landi.

Það sem hins vegar dregur landið niður er verðlag. Þannig er Ísland í 126. Sæti (af 130 þjóðum) á lista yfir bensínverð. En því dýrara sem verðið er því lægra lenda þjóðirnar á listanum.

Fáar dýrategundir á Íslandi

Í flokknum, mannlegar, náttúrulegar og menningarlegar auðlindir er Ísland hins vegar í 36. sæti. Almennt er litið á gott heilsufar og hreina náttúru og skorar Ísland hátt í þeim flokkum.

Það sem dregur Ísland hins vegar niður í þessum flokk er hversu fáar þekktar dýrategundir lifa hér á landi en þar er Ísland í 128. sæti af sem fyrr segir 130 þjóðum. Þá er Ísland í 84. sæti yfir vernduð svæði.