Ísland lendir í 14. sæti í skýrslu World Economic Forum um mannauð (Human Capital Index) sem ætlað er að sýna hvernig lönd nýta og undirbúa mannauð þjóðfélagsins. Fjórar undirvísitölur er notaðar til grundvallar en þar er að finna menntun, heilbrigði, atvinnulíf og stuðningsumhverfi. Sviss er í efsta sæti á listanum en þar á eftir koma Finnland, Singapore, Holland og Svíþjóð. Norðmenn eru í 7. sæti og Danir í 9. sæti.

Ísland er í 5. sæti þegar kemur að heilsu og heilbrigði en í 8. sæti í menntunarmálum. Í flokknum sem snýr að atvinnulífi og vinnuafli er Ísland í 16. sæti og í 20. sæti þegar kemur að stuðningsumhverfinu.

Þegar kemur að menntunarmálum er Ísland efst á lista þegar kemur að aðgangi skóla að internetinu á meðan við erum í 20. sæti þegar litið er á gæði stærðfræði og vísindakennslu.

Íslendingar eru í 8. sæti í atvinnuþáttöku þeirra sem eru á aldrinum 15-64 ára en einungis í 49. sæti í atvinnuþáttöku þeirra sem eru eldri en 65 ára. Þá er Ísland í 58. sæti á meðal allra landa þegar kemur að því að laða til sín hæft starfsfólk.