Fáir efast um að efnahagsfrelsi sé bæði sjálfsagt og nauðsynlegt hverju þjóðfélagi til þess að tryggja efnahagslegan styrk og hagsæld. Allt frá árinu 1995 hefur bandaríska hugveitan Heritage Foundation fengist við að leggja mat á tiltölulegt efnahagsfrelsi ríkja heims, sem gefur bæði góða vísbendingu um hvernig löndunum muni farnast og hversu hagstæð þau séu til fjárfestinga.

Aðferðin er ekki ýkja flókin, þótt hún sé margþætt. Þekkt er að varanleg velgengni á efnahagssviðinu er nátengd stefnufestu um takmörkuð umsvif hins opinbera, tryggan eignarrétt, verslunarfrelsi og frjálsa fjármunaflutninga, skynsamlegt regluverk og sanngjarna skattheimtu. Allir þessir þættir ýta undir frumkvæði og framtak einstaklinga, sem er frumkraftur skilvirks athafnalífs og verðmætasköpunar hverrar þjóðar.

Helstu niðurstöður 2016

Í skýrslunni í ár voru 186 ríki tekin til kostanna. Þau hagkerfi, sem flokkuð eru sem frjáls eða að mestu frjáls njóta að jafnaði tvöfalt meiri tekna miðað við höfðatölu en öll hin löndin í könnuninni. Og fjórum sinnum meira en ófrjálsu löndin, sem sum hver láta enn reyna á áætlunarbúskap.

Ríkjum sem njóta efnahagsfrelsis vegnar betur vegna þess að þau geta betur nýtt sér kosti markaðshagkerfisins til þess að skapa hagvöxt, betri nýtingu gæða lands og lýðs, verðmætasköpun og nýbreytni.

Auk efnalegrar velmegunar eiga þjóðir þeirra meira langlífi að fagna og betri heilsu; þar er umhverfinu jafnan sýnd meiri aðgæsla og þar verða örastar framfarir í vísindum og tækni, sem aftur auka velgengni frekar. Af sama leiðir að félagslegar framfarir eru þar að jafnaði meiri en annars staðar.

Umfjöllun um Ísland

Í skýrslunni er sagt að Ísland, sem sé að ná sér eftir bankahrunið, hafi lagt allt kapp á að koma lagi á ríkisfjármálin, vekja traust á stjórnarstefnu landsins og trú á landinu á ný. Áhersla á frjálst markaðshagkerfi, tryggir og skilvirkir innviðir, lagagrunnur á heimsmælikvarða, gott regluverk og lítil spilling hafi komið hagvextinum á skrið á ný. Ísland sé enda ekki aðeins í 20. sæti á heimsvísu, það sé í 10. sæti í Evrópu.

Nefnt er að víðtæk verkföll vorið 2015 hafi ógnað stöðugleikanum, en bæði hagkerfið og ríkisstjórnin hafi staðið þau af sér. Því hafi hlutfall efnahagsfrelsisins hækkað um 2,4% frá fyrra ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .