Í árlegri skýrslu sem Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum) hefur birt kemur fram að samkeppnishæfni Íslands hefur batnað aðeins miðað við undanfarin ár. Á síðasta ári mældist Ísland í 28. sæti en var árið 2016 í 27. sæti og árið 2015 í 29. sæti.

Efsta sæti varðandi samkeppnishæfni í ár skipa Bandaríkin, síðan kemur Singapore, Þýskaland, Sviss og Japan. Norðurlandaþjóðirnar skipa sér í eftirfarandi sæti; Svíþjóð í 9. sæti, þar á eftir kemur Danmörk í 10. sæti, Finnland í 11. sæti og Noregur í 16. sæti.

Vísitala Alþjóða efnahagsráðsins er einn af virtustu mælikvörðum á efnahagslíf þjóða víða um heim. Vísitalan er víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar.

Ný viðmið hafa verið tekin upp af ráðinu í umræddri skýrslu fyrir árið 2018 sem taka mið af þeim breytingum sem meðal annars fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér, hvað varðar samkeppnishæfni og þá sérstaklega á sviði stafrænnar þróunar, en einnig sköpun í samfélaginu, frumkvöðlamenningu og hversu opin og straumlínulagað eða virkt samfélagið er. Í úttekt ráðsins er Ísland skilgreint sem nýsköpunardrifið hagkerfi og nýtur góðs, eins og endranær, af nokkrum sterkum samkeppnisþáttum eins og stöðu menntunar og heilbrigðismála, stöðugleika, aðlögunarhæfni og sveigjanleika vinnumarkaðar.

Stærsti veikleiki landsins miðað við flest önnur lönd, er eins og verið hefur stærð heimamarkaðar. Við erum í 131. sæti af 140. Atriði sem lítið er hægt að gera við nema að taka áskoruninni við að hvetja fyrirtæki og frumkvöðla til að taka mið af alþjóðamörkuðum í nýsköpunarverkefnum. Sú nýjung í birtingu gagna ráðsins er að við hvert viðmið í mælingum, sem eru alls 98, er viðmiðaland sem stendur sig best í hverju atriði. Handhægt vinnutæki fyrir pólitíkina og stjórnsýsluna að vinna með.

Rannsókn ráðsins byggir á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi og sá um framkvæmd könnunarinnar hér á landi.