Ísland er í 31. sæti á lista svissneska viðskiptaháskólans IMD um samkeppnishæfi 59 ríkja og fellur um eitt sæti á milli ára. Efst á listanum eru Hong Kong og Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Viðskiptaráðs sem er samstarfsaðili IMD á Íslandi.

Samkvæmt tilkynningunni er Ísland í 52. sæti hvað varðar efnahagslega frammistöðu, 40. sæti þegar skilvirkni hins opinbera er metin, 34. sæti þegar skilvirkni atvinnulífsins er metin. Þá er Ísland á meðal bestu landa þegar innviðir samfélagsins eru metnir en í því felst m.a. heilsa, menntamál, aðgengi að vatni, vegakerfi og rafmagni. Á meðal ríkja sem fá svipaða einkunn og Ísland eru Tæland, Tékkland, Indland, Eistland, Pólland og Kasakstan en í þessum löndum er almennt talið að lífskjör séu lakari en á Íslandi. Á meðal þróaðri ríkja á svipuðum stað eru Frakkland, Írland, Portúgal og Ítalía. Ísland er langneðst Norðurlandanna á listanum en efst er Svíþjóð, sem er í 4. sæti.

Í fréttatilkynningu VÍ segir að styrkleikar þeir sem voru til staðar í fyrra standi í stað í mælingunni en það sé áhyggjuefni að ekki hafi tekist að færa aðra veikleika til betri vegar. Hins vegar valdi sterkir innviðir samfélagsins því að samkeppnishæfni Íslands byggi á sterkum grunni og séu góður grundvöllur uppbyggingar til framtíðar.