Norðmenn eru efstir á lista World Economic Forum yfir þær þjóðir sem komast næst því að jafna hluta kynjanna.

Þar á eftir koma þrjár Norðurlandaþjóðir; Finnland, Svíþjóð og Ísland er í fjórða sæti listans.

Listinn nær yfir 130 þjóðir.

Noregur fer á milli ára úr þriðja sæti í fyrsta sæti á lista World Economic Forum. Noregur skorar 82,5% en því hærri sem talan er því minni hlutfall er milli kynjanna í fyrrgreindum áhrifastöðum.

Finnland skorar 82% en Svíþjóð, sem var efst á listanum í fyrra, skorar 81,4%. Ísland skorar slétt 80%.

Hástökkvari ársins er Frakkland sem fer úr 51. sæti listans í 15. sæti en þar munar mest um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum.

Í skýrslu World Economic Forum kemur fram að hlutur kynjanna verður sífellt jafnari í pólitískri þátttöku, menntun og stjórnunarstöðum fyrirtækja. Bilið milli kynjanna í heilbrigðismálum eykst þó milli ára.

Þá kemur jafnframt fram í skýrslu World Economic Forum að áberandi sé hversu mikill hlutur kvenna hefur aukist í stjórnunarstöðum fjármálafyrirtækja og eins á hinum pólitíska vettvangi. Þannig gefa skýrsluhöfundar sér að konur muni hafa veruleg áhrif við að leysa úr þeirri fjármálakrísu sem nú gengur yfir.

„Frekari þátttaka kvenna í áhrifastöðum meðal stjórnvalda og fjármálastofnana er mikilvægur í því ferli að leysa úr núverandi vandamálum í fjármálalífinu og ekki bara það, heldur einnig til að koma í veg fyrir að slíkt komi aftur upp í framtíðinni,“ sagði Klaus Schwab, stjórnarformaður World Economic Forum við kynningu skýrslunnar.

Sjá nánar vef World Economic Forum. Þar er hægt að sækja skýrsluna (pdf skjal) auk þess sem hægt er að skoða hverja þætti fyrir sig.