Landsframleiðsla á fyrri helmingi ársins jókst um 2,2% frá sama tíma í fyrra samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Einkaneysla og utanríkisviðskipti drífa aukninguna en fjárfesting dróst saman um 13% á milli ára.

Samdráttur í fjárfestingu er þó að mestu leyti vegna mismunar í innflutningi á skipum og flugvélum á milli ára. Ef fjárfesting í skipum og flugvélum er frádregin jókst fjárfesting um rúm 4% miðað við fyrri árshelming 2012. Miðað við sama mælikvarða hefur atvinnuvegafjárfesting aukist um tæp 5% á milli ára svipað og fjárfesting hins opinbera. Þá jókst íbúðafjárfesting um 1% miðað við fyrstu sex mánuði ársins 2012.

Fjárfesting tekur við sér á milli ára – þó að enn langt í land. Þrátt fyrir ánægju um að allir þættir fjárfestingar hafi aukist á milli ára er ljóst að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu er enn langt frá sögulegu meðaltali. Fyrir virkjana- og fjárfestingaárin miklu 2005, 2006 og 2007 var fjárfesting að meðaltali um 20% af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið hefur verið svipað meðal okkar helstu viðskiptalanda. Miðað við nýjustu þjóðhagstölur frá Hagstofunni virðumst við eiga erfitt með að hífa fjárfestingu upp í fyrra meðaltal en hlutfallið er enn undir 15%.

Bein erlend fjárfesting aðalmálið?

Mikið hefur verið rætt um mikilvægi beinnar erlendrar fjárfestingar í þessu samhengi. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lagði áherslu á að laða hér að erlenda fjárfesta með ýmsum leiðum í skugga hafta, meðal annars með fjárfestingarleiðinni svokölluðu og með vilyrði um að ýmsar fjárfestingar gætu losnað innan ákveðins tíma. Með þessu móti átti að koma til móts við ótta erlendra fjárfesta um að „festast“ hér á landi með fjárfestingar sínar um ókominn tíma. Þess utan fæst talsverður afsláttur af íslenskum krónum ef fjármagn er tekið inn í landið með fjárfestingarleiðinni.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu 12. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .