Ísland er í 83. sæti á heimsvísu þegar kemur að aðgengi almennings að húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta kemur fram í vísitölu félaglegra framfara (VFF) sem gefin er út af stofnuninni Social Progress Imperative (SPI) fyrir 128 ríki heims.

Þegar lífsgæði hér á landi eru skoðuð í heild sinni þá er Ísland í þriðja sæti ásamt Noregi, en erfitt ástand á húsnæðismarkaði hér á landi er eitt það helsta sem dregur Ísland niður í samanburðinum. Danmörk, sem er besta land heims samkvæmt vísitölunni, situr í sjöunda sæti þegar kemur að húsnæðismálum.

Húsnæðisþing hefst í dag

Velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður boða í dag til sérstaks húsnæðisþings til að stilla saman strengi þeirra sem koma að húsnæðismarkaðnum á Íslandi. Vonir standa til að með aukinni samvinnu og bættri áætlanagerð megi hindra að sams konar staða komi upp aftur, þar sem fólk fær ekki húsnæði við hæfi. Þingið fer fram á Nordica hótel við Suðurlandsbraut.

Ráðherra húsnæðismála, Þorsteinn Víglundsson, mun opna þingið en Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, mun því næst fjalla um opinberan húsnæðisstuðning á Íslandi í sögulegu ljósi og hvort líta megi á aðgengi að húsnæði sem grundvallar mannréttindi.

Ellý, Guðný, Hildur og Guðrún Ásta segja frá reynslu sinni

Kynntar verða niðurstöður ítarlegrar könnunnar hagdeildar Íbúðalánasjóðs á stöðu fólks á leigumarkaði og þá munu nokkrir einstaklingar sem þekkja erfiðleika á húsnæðismarkaði af eigin raun segja frá reynslu sinni.

Þetta eru þær Hildur Hjörvar lögfræðingur sem nýverið keypti sér sína fyrstu fasteign, Guðný Helga Grímsdóttir smiður sem flutti út á land til að greiða lægri húsaleigu og Guðrún Ásta Tryggvadóttir kennari sem flutti til Danmerkur til að komast í húsnæði á lægra verði. Þá mun Ellý Ármanns blaðamaður segja frá því þegar hún missti fasteign sína vegna skulda og erfiðleika hennar við að komast í nýtt húsnæði.

Einyrkjar og verktakar ræða byggingar

Þá munu fjórir aðilar sem eru byggja hús af ýmsum stærðum og gerðum fjalla um hvaða augum þeir líti stöðuna í dag.

Þetta eru þau Eygló Harðardóttir fyrrverandi ráðherra sem ásamt fjölskyldu sinni er að byggja sér hús í Mosfellsbæ, Ágústa Guðmundsdóttir markaðsstjóri Búseta sem er að byggja blandað fjölbýlishús í vesturbænum, Kristján Sveinlaugsson fjármálastjóri Þingvangs sem er verktaki með mörg stór uppbyggingarverkefni í gangi og Ólöf Örvarsdóttir hjá Reykjavíkurborg sem stefnir á að koma þúsundum nýrra íbúða í gagnið á næstunni.

Fjölmargir aðrir flytja erindi og þá verða umræður í sal undir stjórn Brynju Þorgeirsdóttur fundarstjóra.

Segir að stýra þurfi húsnæðismarkaðnum

Hermann Jónasson forstjóri Íbúðalánasjóðs segir ástandið sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði ekki vera ásættanlegt.„Stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við skortinum og við sjáum fram á betri tíma en um leið þurfum við að læra af þeim mistökum sem við höfum gert. Við þurfum að stýra húsnæðismarkaðnum betur,“ segir Hermann.

„Ellegar erum við dæmd til að verða leiksoppar hans líkt og gerst hefur allt of oft á síðustu árum. Íslendingar geyma stóran hluta eigna sinna í húsnæði. Heildareign sem er bundin í íbúðarhúsnæði hér á landi er á pari við allan lífeyrissparnað landsmanna og það liggur í augum uppi að það er ekki æskilegt að verð þessara eigna okkar rjúki upp og hríðlækki til skiptis.”