Við opnun markaða í morgun færðist Ísland upp um gæðaflokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging markets). Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland hringdu af því tilefni fyrstu viðskipti dagsins inn við athöfn í Kauphöllinni.

Færsla Íslands í flokk nýmarkaðsríkja er mikil viðurkenning á öflugu starfi markaðsaðila við að styrkja íslenska markaðinn innan hins alþjóðlega fjármálamarkaða. Mikilvægar skráningar, aukinn seljanleiki og ýmsar aðrar umbætur hafa jafnt og þétt aukið áhuga innlendra og erlendra fjárfesta, að því er kemur fram í tilkynningu.

Núna um daginn varð Instinet, sem er í eigu Nomura aðili að íslenska markaðnum og er von á aðild fleiri erlendra aðila. Í tilkynningu segir að möguleikar íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar muni batna til muna við breytingarnar. Endurflokkunin þýðir aukið innflæði fjármagns inn á markaðinn sem styrkir íslenskan hlutabréfamarkað sem skráningar- og fjármögnunarvettvang, þar sem fleiri verða tilbúnir til að kaupa bréf í íslenskum fyrirtækjum.

15 félög fá öll sæti í vísitölunni í dag, en Ísland verður tekið inn í þremur skrefum. Fyrsta skrefið var tekið í morgun, þriðjungur af væginu verður tekið inn í desember og lokaþriðjungurinn í mars.