Ísland er öflugast í heiminum í upplýsingatækni og fjarskiptum og ýtir Suður-Kóreu úr efsta sætinu milli ára. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðafjarskiptasambandsins, undirstofnun Sameinuðu þjóðanna, um framþróun fjarskiptavísitölunnar fyrir árið 2017 en úttektin nær til 192 landa.

Í skýrslunni segir að Ísland sé eitt af háþróuðustu upplýsingasamfélögum heims. Háhraða farsímanet og heimanet sé jafnframt algeng á Íslandi. Stjórnvöld stuðla áfram að bættum nettengingum í strjálbýli og reglur sem styðja samkeppni og nýsköpun séu til staðar.

Evrópu- og Asíulönd skipa topp tíu listann. Sviss er í þriðja sæti, Danmörk í því fjórða, Bretland fimmta, Hong Kong sjötta, Holland er í sjöunda sæti, Noregur því áttunda, Lúxemborg níunda og Japan í því tíunda. Erítrea vermir botnsætið og þar fyrir ofan koma Mið-Afríkulýðveldið, Chad, Gíneu-Bissá og Búrúndi.

Fjarskiptavísitalan er mæld út frá ellefu ólíkum þáttum. Þar á meðal fjölda neytenda með heimasíma, farsíma, bandvídd úr landi og fjölda heimila með netið, notkun á því og menntun landsmanna.

„Helsta ástæðan fyrir góðu gengi Íslands er afar hátt hlutfall farsímaáskrifta hér á landi, öflug útlandatenging ásamt einu hæsta hlutfalli tölvueignar og heimila með netáskrift. Þá hífir aðgengi að framhaldsmenntun okkur upp en minni sókn í menntun en almennt í Evrópu hefur dregið okkur niður síðustu ár,” segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans í tilkynningu.