Það er ekkert óvenjulegt við að Ísland sé notað sem sviðsmynd í Hollywood-myndum. Það er hins vegar óvenjulegt að fólk viti að landslagið sem það er að horfa á sé frá Íslandi segir í grein sem birtist á vef The Guardian í dag.

Í greininni segir loksins núna, í myndinni The Secret Life of Walter Mitty, sé Ísland í raun og veru í aðalhlutverki því myndin eigi að gerast á Íslandi. Yfirleitt þegar aðrar myndir hafi verið teknar upp hér eigi landið að vera af einhverjum ímynduðum eða goðsagnakenndum heimi og eru þættirnir The Games of Thrones og myndirnar Thor, Oblivion og Prometheus teknar sem dæmi.

„Núna á Ísland ekki að vera einhver fjarlæg pláneta - núna snýst allt um Ísland," segir í greininni og er fegurð landsins lofuð í hástert. Sýningar á myndinni The Secret Life of Walter Mitty hófust í Bretlandi í dag.

Hægt er að lesa greinina hér .

Hér má svo sjá stiklu úr kvikmyndinni. Eins og þar má sjá er hlutverk Íslands býsna stórt.