Ísland er í hópi þeirra tíu þjóða sem eru í mestri efnahagslegri áhættu vegna vandamálanna á evrusvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem gerð var af ráðgjafarfyrirtækinu Maplecroft, en greint er frá þessu á Vísi . Bretland er á toppi listans yfir þær 18 þjóðir sem taldar eru í mestri áhættu vegna evrusvæðisins. Skýrist það einkum af stærð fjármálamarkaðarins í London og tengsla hans við evrusvæðið. Í næstu sætum á eftir Bretlandi eru svo Pólland, Ungverjaland og Tékkland.

Ísland er í níunda sæti listans rétt á eftir Svíþjóð sem er í áttunda sæti. Hvað Ísland varðar eru áhættan einkum fólgin í því að utanríkisverslun landsins við lönd innan Evrópusambandsins (ESB) er mjög mikil. Þannig er útflutningur frá Íslandi til ESB 78% og innflutningur yfir 46% af utanríkisverslun Íslands í heild. Samanlagt nema þessi viðskipti yfir 30% af landsframleiðslu landsins.