Ísland mælist meðal frjálsustu þjóða heims hvað efnahagsfrelsi varðar í nýútkominni skýrslu Economic Freedom of the World. Íslendingar færast upp um fjögur sæti á milli ára, voru í 41. sæti árið 2011 en færast upp í 37. sæti árið 2012. Í skýrslunni eru mældir þættir sem þykja sýna fram á hversu mikið efnahagslegt frelsi ríki í löndum heims.

Frjálsasta þjóð heims hvað viðskipti varðar er Hong Kong. Ísland mælist ófrjálsast af Norðurlöndunum, en Finnland er frjálsast þeirra og situr í 10. sæti. Danmörk mælist í 19. sæti. Ófrjálsasta þjóð heims er Venesúela í 152. sæti, en þar fyrir ofan er Kongó.

Viðskiptafrelsi dregur úr átökum

Skýrsluhöfundar segja sterkt orsakasamhengi á milli þess að fólk búi við efnahagslegt frelsi og almenn lífsgæði til langs tíma. Í nýjustu skýrslunni er sérstök áhersla lögð á að rannsaka tengsl efnahagsfrelsis, ofbeldis og styrjalda.

Í niðurstöðukafla segir: „Megindlegar niðurstöður sýna að efnahagslegt frelsi hefur tölfræðilega marktæk áhrif til að draga úr líkum á átökum, brotum ríkja á réttindum fólks yfir eigin líkama, eykur líkur á friði á milli ólíkra þjóðar-, tungumála- og trúarbrota innan ríkja, gæði stofnana og meðaltekjur sem gagnast til að áætla getu ríkja til að halda kostnaðarsömum átökum í skefjum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .