Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, segir norðurslóðir bjóða upp á vaxtatækifæri fyrir fyrirtækið í flutningsmiðlun, sérlausnum og umboðsmennsku, enda sé Ísland að verða þar algjör miðja.

Í hverju felst þjónustan við t.d. skemmtiferðaskipin?

„Skemmtiferðaskipin þurfa alls konar þjónustu og við erum ábyrg gagnvart þeim og íslenskum yfirvöldum þegar þessi stóru skip eru í höfn. Þjónustan er fjölbreytt, allt frá því að tryggja að skipið eigi örugga innkomu og útkomu úr íslenskri höfn yfir í að útvega tannlæknaþjónustu fyrir stakan farþega eða útvega varahluti í skipið sjálft. Þetta er mjög fjölbreytt og við erum með 12-15 manna teymi sem sinnir einvörðungu þessum skipum dag og nótt. Þeim er heldur ekki bara að fjölga heldur stækka þau líka og ég held að við Íslendingar séum mjög heppnir að mörgu leyti hvað þetta varðar.

Ísland er að verða algjör miðja á norðurslóðum og við verðum að nýta tækifærið vel. Áður fyrr vorum við kannski bara hluti af rúntinum en nú eru fyrirtækin farin að stilla Íslandi upp sem miðju í sinni skipulagningu. Útgerðirnar eru farnar að gera sér grein fyrir þeim öflugu innviðum sem eru á Íslandi og af þessu getum við verið mjög stolt.

Við erum einnig farin að sjá aukna tíðni svokallaðra leiðangursskipa, sem eru minni tegund skemmtiferðaskipa en leggja mikla áherslu á náttúruskoð- un. Þessi aukning gerir mikið fyrir minni hafnirnar og styrkir þær.“

Þannig að það eru enn frekari vaxtatækifæri í þessum geira?

„Það eru klárlega vaxtatækifæri, en við sáum fyrst og fremst að það þurfti að taka vinnurammann í gegn varð- andi umboðsmennsku fyrir skip á Íslandi. Við höfum líkt og ég minntist á verið að vinna að aukinni sölu á íslenskum vörum til skipanna undir nafninu „Flavour of Iceland“, íslenskar vörur hafa mikla samkeppnishæfni í bæði gæðum og verðum. Þessir erlendu að- ilar gera sér ekki endilega grein fyrir því í byrjun en eru farnir að gera það meira og meira.

„Flavour of Iceland“ nær til íslenska fisksins, kjötsins, mjólkurafurða, vatnsins og fleira. Við höfum upp á svo mikið að bjóða og við þurfum að tryggja að salan nái í gegn þannig við getum sýnt fram á gæðin. Ég held að þar liggi tækifærin fyrir Íslendinga í öllum þessum uppgangi: aukinni ferðamennsku, auknum áhuga á norðurslóðum, og það þarf að nýta tækifærin og hrinda verkefnum í framkvæmd. Við þurfum að hlúa vel að þessu til að halda áfram að eiga þessi tækifæri til framtíðar líka, því það liggja mikil tækifæri í sjótengdri ferðamennsku hér á landi. Það reynir mikið á okkur að tryggja öfluga umgjörð til að tækifærin verði ekki bara til staðar á morgun heldur um alla framtíð.“

Eru norðurslóðir þá helstu vaxtatækifærin?

„Norðurslóðirnar eru klárlega eitthvað sem við myndum skilgreina sem sterkt vaxtatækifæri fyrir TVG Zimsen. Við sjáum líka tækifæri í umboðsmennskunni og ýmissi starfsemi í kringum hana. Það eru einnig tækifæri í okkar hefð- bundnu flutningsmiðlun og sérlausnum. Ísland tikkar í mörg box og það mun pottþétt þurfa mikla lógistík í kringum það í framtíðinni. En það er fyrst og fremst gríðarlega mikilvægt að reka fyrirtækið með miklu keppnisskapi. Þú ert alltaf að mæta í hvern dag til að berjast, bæði til að standa með kúnnunum þínum, finna nýja kúnna og berjast fyrir því að standa þig sem best alla daga.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .