*

fimmtudagur, 2. apríl 2020
Innlent 8. mars 2020 14:29

Ísland keppi ekki í lágum verðum

Forstjóri Icelandair segir það eigi ekki að vera stefna íslenskrar ferðaþjónustu að keppa í lágum verðum.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Eva Björk Ægisdóttir

„Ísland er ekki og á ekki að vera áfangastaður sem keppir aðallega í lágum verðum. Það er heldur engin ástæða til þess, enda erum við með einstaka náttúru sem við þurfum að standa vörð um.“ Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, á aðalfundi fyrirtækisins síðastliðinn föstudag. 

Bogi fór um víðan völl í máli sínu þar sem hann fór m.a. yfir rekstrarárið, kyrrsetningu MAX vélanna, hótelsöluna og þær áskoranir sem fylgja útbreiðslu kórónuveirunnar sem skapar miklu óvissu í flugi og ferðaþjónustu. 

Benti Bogi þó á að þetta væri sannarlega ekki í fyrsta skipti þar sem Icelandair þurfi að takast á við erfiðar ytri aðstæður.

„80 ára saga félagsins hefur kennt okkur að við þurfum alltaf að vera búin undir hið óvænta; hvort sem það eru náttúruöflin sem við Íslendingar þekkjum vel, efnahagslegar breytingar, farsóttir eða aðrar áskoranir.“

Í ræðunni sagði Bogi einnig að ekki sé hægt að markaðssetja sérstöðu landsins með lágum verðum en þess í stað getum við lagt áherslu á að bjóða þeim ferðamönnum sem hingað koma upp á ógleymanlega upplifun, góða þjónustu og gestrisni. „Það ætti að vera stefna okkar.“

Að mati Boga er sú stefna sem ráðherra ferðamála hefur nú þegar kynnt rétt skerf í þá átt en sagði  að á sama tíma þurfi stjórnvöld að leggja aukna áherslu á samkeppnishæfni Íslands og huga að sjálfbærri uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. 

Þá kallaði hann einnig eftir því að stjórnvöld lækki skatta og álögur á ferðaþjónustuna. 

„Þrátt fyrir að Ísland sé dýrari áfangastaður en þeir staðir sem við helst keppum við, þá er framlegð ferðaþjónustufyrirtækja lág. Auka þarf framleiðni í greininni, en auk þess þurfa stjórnvöld að lækka skatta og álögur á ferðaþjónustuna. Á síðustu árum hefur þó meira verið rætt á vettvangi stjórnmálanna hvernig hægt sé að skattleggja ferðaþjónustu umfram það sem nú er gert.“