Ísland hefur verið formlega tekið inn í vaxtarmarkaðsvísitölu Morgan Stanley Capital International (MSCI). Við tilfærsluna hafa Arion banki og Marel, sem MSCI flokkar sem meðalstór fyrirtæki (standard), verið tekin inn í vaxtarmarkaðsvísitölu MSCI.

Þá eru 10 íslensk fyrirtæki, sem MSCI flokkar sem minni fyrirtæki (small cap), nú hluti af Frontier Small Cap vísitölum MSCI, það eru Brim, Eik, Eimskip, Festi, Hagar, Kvika banki, Reginn, Reitir, Síminn og VÍS.

Ísland tekið inn í fleiri vísitölur

Í júní í fyrra, á sama tíma og MSCI tók ákvörðun um að færa Íslandsvísitölu fyrirtækisins úr flokki stakra markaða yfir í flokk vaxtarmarkaða (Frontier Markets), var tilkynnt um fyrirhugaða athugun á gjaldgengi Íslands í vísitölurnar Frontier Markets 100 og Frontier Markets 15% Country Capped. Í febrúar síðastliðnum staðfesti MSCI að Ísland væri gjaldgengt í vísitölurnar og hefur Íslandsvísitalan því jafnframt formlega verið tekið inn í þær vísitölur.

Lönd sem tekin eru inn í vaxtarmarkaðsvísitölu MSCI eru um leið tekin inn í MSCI Frontier Emerging Markets vísitöluna. Þá verður gengi íslensku krónunnar, sem og framvirkt gengi hennar, notað til að endurspegla hlutabréf skráð á íslenskan markað við útreikninga á MSCI Hedged vísitölunum.

Gjaldgengi í íslam-vísitölur til skoðunar

Þá skoðar MSCI jafnframt hvort Ísland sé gjaldgengt í íslam-vísitölur fyrirtækisins og verður ákvörðun tekin fyrir samhliða reglubundinni endurskoðun á vísitölum MSCI í ágúst næstkomandi.

Í íslam-vísitölunum eru fyrirtæki sem henta fjárfestingastefnu Sharia-laga. Fjárfestingarstefna þeirra heimilar ekki fjárfestingar í fyrirtækjum sem starfa með beinum hætti í, eða skapa meira en 5% af tekjum sínum með viðskiptum með áfengi, tóbak, svínakjöts-tengdum vörum, hefðbundinni fjármálaþjónustu, varnar- og vopnaiðnaði, fjárhættuspilum eða kynlífstengdum vörum og þjónustu.

Afnám bindiskyldu plægði akurinn

MSCI ákvað síðasta sumar að færa Íslandsvísitöluna úr flokki stakra markaða yfir í flokk vaxtarmarkaða eftir  bindiskylda var afnumin á Íslandi árið 2019. Tilfærsla Íslands í flokk vaxtarmarkaða þykir viðurkenning fyrir íslenskan hlutabréfamarkað og skapar tækifæri fyrir fyrirtækin til að sækja sér erlend fjármagn, þá sérstaklega þau meðalstóru, Arion banka og Marel, sem hluti af vaxtarmarkaðsvísitölunni.