*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 5. janúar 2019 18:01

Ísland á langt í land til jafnréttis

Eliza Reed segir mikið svigrúm til framfara í jafnréttismálum hér á landi, sérstaklega hópa eins og erlendra kvenna.

Sveinn Ólafur Melsted
Eliza Reid er forsetafrú Íslands, en hún er gift Guðna Th. Jóhannessyni.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur vart farið framhjá þeim sem hafa fylgst með Elizu Reid forsetafrú að jafnrétti er henni mjög hugleikið. Eins og fjallað var um í Áramótum, sérblaði Viðskiptablaðsins og Frjálsar verslunar, segist hún hafa þurft að treysta á eigið innsæi því engar leiðbeiningar hafi verið til um hlutverk forsetafrúar.

Einnig hefur hún úttalað sig um gildi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi sem hún hefur haft mikinn áhuga á. Eliza bendir á að þó að Ísland sé vel statt á alþjóðlegan mælikvarða í jafnréttismálum, þá sé enn mikið svigrúm til frekari framfara í þeim málaflokki.

„Það er margt innan málaflokksins sem við getum verið stolt af en á sumum sviðum eigum við enn langt í land. Í samanburði við önnur lönd er staðan góð. Kannanir og tölfræði frá The World Economic Forum sýna að við erum í fremstu röð þegar kemur að jafnréttismálum meðal landa í heiminum.

Þrátt fyrir þetta eigum við enn langt í land með það að komast á áfangastað. Ef einhver íslensk kona yrði spurð að því hvort hún sé ekki stolt af því að búa í landi þar sem er best að vera kona, þá efast ég um að margar myndu bara svara játandi án þess að bæta því við að það væri samt enn svigrúm til úrbóta.

Ég tilheyri hópi kvenna af erlendum uppruna en þessi hópur er í viðkvæmri stöðu, hlutar hans eru þeir einstaklingar sem þurfa að þola hvað mest af ofbeldi og mæta mestum fordómum. Við þurfum að passa upp á þennan hóp og fleiri hópa sem eiga erfitt uppdráttar vegna fordóma, til dæmis samkynhneigða, transfólk og aðra minnihlutahópa sem stundum eru jaðarsettir.

Það er gífurlega mikilvægt að fólk í opinberum stöðum, sem horft er til sem fyrirmynda, tali af virðingu í garð allra og sýni hana í verki. Því miður er það ekki alltaf þannig. Það er ekki síður mikilvægt að konur tjái skoðanir sínar til þess að næsta kynslóð sjái að konur hafi sterka rödd, skýrar skoðanir og sýni staðfestu við það sem þær vilja gera. Þannig bætum við samfélagið fyrir okkur öll.“

Nánar er rætt við Elizu í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta skráð sig með því að smella á Áskrift.