Nýjar tölur frá Eurostat um atvinnuleysistölur hjá Evrópusambandinu sýna að 197,5 milljónir fólks á aldrinum 15 ára og eldri voru þar starfandi á vinnumarkaði árið 2005. Á Íslandi var hlutfallið fyrir sama aldurshóp hins vegar 83,8% og er það lang hæsta hlutfallið í samanburði Eurostat. Næst kemur Sviss með 77,2% og þá Danmörk sem áður er getið með 75,9%.

Á þetta er bent í nýju fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins. Heildarhlutfall fólks á aldrinum 15-64 ára sem höfðu atvinnu (total employment rate) var 63,8%. Hæst var hlutfallið 75,9% í Danmörku, 73,2% í Hollandi og 72,5% í Svíþjóð. Lægst var hlutfallið 52,8% í Póllandi og 53,9% á Möltu. Af hinum 15 ?eldri? aðildarríkjum ESB var hlutfallið lægst á Ítalíu, 57,6%.

Á fundi leiðtoga ESB í Stokkhólmi 2001 var samþykkt að stefna að því markmiði að árið 2005 skyldu a.m.k. 67% fólks á aldrinum 15-64 ára í löndum ESB vera í vinnu til að hægt verði að fjármagna hækkandi eftirlaunakostnað og rekstur kostnaðarsamra velferðarkerfa. Eins og framangreindar tölur sýna náðist þetta markmið ekki. Á sama fundi var samþykkt að stefna að því markmiði að 70% fólks á aldrinum 15-64 ára verði starfandi á vinnumarkaði. Var þetta markmið liður í Lissabonáætluninni um að gera ESB samkeppnishæfara fyrir árið 2010 segir í fréttabréfi SA.