Á árunum 2003-2005 var 10% þeirra sem bjuggu á einkaheimilum á Íslandi undir lágtekjumörkum eins og þau eru skilgreind í lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Lágtekjumörkin eru 111.333 krónur á mánuði í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling sem býr einn, en 233.800 fyrir tvo fullorðna með börn. Greint er frá þessu í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar.

Hlutfall kvenna á aldrinum 16-24 var undir lágtekjumörkum var hæst af öllum hópum, eða rúm 14%. Lægsta hlutfallið mældist hjá fólki í aldurhópnum 50-64 ára, rétt yfir 4%.

Sé tekjuhæsti fimmtungurinn borinn saman við tekjulægsta fimmtunginn kemur í ljós að tækjuhæsti hópurinn hefur 3,7 sinnum hærri laun en sá tekjulægsti. Samkvæmt Hagstofunni er Gini-stuðullinn fyrir árið 2005 26, en stuðullinn mælir dreifingu ráðstöfunartekna meðal landsmanna.

„Af 30 Evrópuþjóðum árið 2005 var Ísland ein þriggja þjóða sem var með lægsta lágtekjuhlutfallið. Sex þjóðir voru með lægri fimmtungastuðul en Íslendingar, ein jöfn og 22 með hærri stuðul. Loks voru sex Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul en Íslendingar tvær jafnar og 21 með hærri stuðul,” segir í frétt Hagstofunnar.