

Samkvæmt tölum OECD frá árinu 2016, er svokallaður NEET vísir, lægstur hér á landi, en hann horfir til þess hverjir á aldrinum 20 til 29 ára eru hvorki í vinnu, námi né nokkurri starfsþjálfun.
Samkvæmt honum eru aðeins 6,2% hér á landi í þessum aldurshópi óvirk, en Holland kemur næst okkur, með 7,8% óvirkni, að því er fram kemur í grein Guðrúnar Ragnheiðar Jónsdóttur, sérfræðings hjá Virk, starfsendurhæfingarsjóði, í árskýrslu sjóðsins. Meginástæðan í flestum löndum er atvinnuleysi, en hér á landi var það hlutfall 2,2% meðan það var hæst í Grikklandi 17,8%, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er hlutfall örorku eitt það hæsta hér á landi.
En einnig er óvirkni af öðrum ástæðum en atvinnuleysi lægst hér á landi, eða 3,9%, meðan það fer úr 4,8% í Svíþjóð í 7,7% í Finnlandi meðal Norðurlandanna. Samt sem áður er hlutfall ungra öryrkja mun lægra í Finnlandi en hér, eða 2% í stað 4%.
Hlutfall óvirkra hér á landi fór lækkandi fram að fjármálakreppunni, en jókst mikið á árunum 2008 til 2009, en síðan hefur dregið úr því hér á landi eins og flestum öðrum löndum, utan Finnlands, þar sem hún hefur aukist.
Segir Guðrún þó að efnahagsbatinn sem hafi orðið síðan fjármálakreppan varð hafi hann ekki dugað í flestum OECD löndum aftur til vinnu. Á það sérstaklega við um þá sem hafa litla vinnu, en einnig eru ungar konur 1,4 sinnum líklegri til að verða óvirkar en karlar.
„Helsta áskorun fyrir stjórnvöld á komandi árum er að móta stefnu sem hvetur ungt fólk til að afla sér þeirrar faglegu þekkingar sem það þarf á vinnumarkaði og hjálp fyrir þá sem eru óvirkir að yfirstíga hindranir til menntunar og atvinnu. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur einnig fram að þeir sem fæddir eru í öðru landi, þeir sem eiga atvinnulausa foreldra eða foreldra með litla menntun eru líklegri til að verða óvirkir,“ segir Guðrún í greininni.
„Helstu leiðir til að koma í veg fyrir óvirkni er samkvæmt OECD að koma í veg fyrir brottfall úr skólum, snemmbær inngrip ef nemendur sýna félagsleg eða heilsufarsleg vandamál, áhugahvetjandi eftirfylgni við útskrifaða nema og efling verknáms.“