Kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei er um þessar mundir að hefja sölu á farsímum sínum hér á Íslandi. Þrátt fyrir að vörumerkið sé ekki þekkt hér á landi eru tengsl fyrirtækisins við íslenskt fjarskiptaumhverfi ef til vill meiri en flestir gera sér grein fyrir. Fyrirtækið spilaði lykilhlutverk í 3G og 4G væðingu landsins og forstjóri fyrirtækisins í Skandinavíu, Kenneth Fredriksen, segir fyrirtækið ætla sér frekari fjárfestingar á Íslandi á komandi misserum

Ísland mikilvægur markaður

Fredriksen segir að þrátt fyrir að Ísland sé lítill söluaðili sé markaðurinn mjög mikilvægur fyrir Huawei. „Íslenskur markaður á sérstakan stað í huga Huawei, þetta var enda fyrsta landið þar sem okkur gafst tækifæri til sýna fram á getu okkar þegar við vorum að kanna grundvöll fyrir frekari viðskiptum í Evrópu. Þrátt fyrir að almenningur á Íslandi sé ekki meðvitaður um það þá var Ísland fyrsti staðurinn þar sem við byggðum upp heilt farsímakerfi og fengum þannig tækifæri til að sýna getu okkar til að sinna slíkri alhliða þjónustu.

Þrátt fyrir að um sé að ræða lítinn markað þá er þetta á sama tíma mjög þróaður markaður, neytendur eru gjarnir á að prófa nýjar vörur og tækni og það gerir markaðinn mikilvægan fyrir okkur. Við höfum því fjárfest í svæðinu til lengri tíma, höfum sett upp skrifstofur og munum halda áfram að fjárfesta hér á landi. Við hlökkum auk þess mikið til að komast inn á almennan neytendamarkað með vörumerkið okkar og veita Íslendingum þannig tækifæri til að kynnast Huawei-vörunum betur. Íslenskir neytendur munu vonandi þekkja okkur betur að ári liðnu,“ segir Fredriksen.

Ótrúlega spennandi tímar

Fredriksen segir sérstaklega spennandi að starfa í tæknigeiranum um þessar mundir. „Ég held að það hafi aldrei verið svona spennandi að starfa innan tæknigeirans og eftir því sem tíminn líður þá virðist umhverfið bara verða öflugara.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.