Fyrirtækið Loftmyndir ehf. hefur nýlokið endurmælingum á strandlínu Íslands og er það niðurstaða mælinganna að Ísland er 102.775 ferkílómetrar að stærð, en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landmælinga Íslands hefur Ísland hingað til verið talið 103.000 ferkílómetrar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Loftmyndum.

Mælingarnar eru gerðar eftir háupplausna loftmyndum sem fyrirtækið hefur tekið af allri strandlínu landsins undanfarin ár.

„Með þessari aðferð er hægt að mæla stærð Íslands nákvæmar en hægt hefur verið áður auk þess sem einfaldara verður að endurmæla strandlínuna síðar og kortleggja þannig breytingar á henni eða jafnvel vakta ákveðin svæði sérstaklega þar sem breytingar eru örastar. Eldri upplýsingar um stærð landsins hafa verið byggðar á misgömlum og oft ónákvæmum gögnum en nú er í fyrsta skipti til mæling af öllu landinu sem gerð er með sömu aðferð og innan stutts tímaramma,“ segir í tilkynningunni.

Við þessar endurmælingar var einnig reiknuð út ný miðja Íslands sem færist frá því sem áður hefur verið talið um 120m. Ný miðja landsins er 64°59'09.2" Norður 18°35'04.6" Vestur. Heildarlengd strandlínu Íslands er jafnframt samkvæmt þessari nýju mælingu 6542.4 km