Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið koma ekki til með að breyta miklu er varðar fjármálaþjónustu enda fellur sá málaflokkur að öllu leyti undir EES-samninginn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en samningsafstaða Íslands í köflum 9 og 24 hefur nú verið birt. Kaflarnir snúa að fjármálaþjónustu annars vegar og dóms- og innanríkismálum hins vegar.

Í samningsafstöðu Íslands í kafla 9 um frjálsa vöruflutninga lýsir Ísland meðal annars þeim endurbótum á innlendri löggjöf, stjórnsýslu og eftirliti með fjármálaþjónustu sem gerðar hafa verið í kjölfar efnahagshrunsins og leggur áherslu á að allir aðilar máls virði væntanlega niðurstöðu EFTA dómstólsins um framkvæmd tilskipunarinnar um innstæðutryggingar. Þá óskar Ísland eftir því að Viðlagatrygging Íslands sem veitir tryggingu vegna tjóns að völdum náttúruhamfara verði undanþegin ákvæðum tilskipunar um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga.

Afstaðan var send framkvæmdastjórn ESB og aðildarríkjum eftir að um hana hafði verið fjallað í viðkomandi samningahópum, samninganefnd Íslands og utanríkismálanefnd Alþingis, og hún samþykkt í ráðherranefnd og ríkisstjórn. Búist er við að viðræður hefjist í viðkomandi málaflokkum síðar á þessu ári.

Samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu snúast um 33 kafla í regluverki ESB, auk kafla um stofnanir og annað. Alls hafa 15 samningskaflar verið opnaðir frá því að efnislegar aðildarviðræður hófust í júní á ´siðasta ári og er samningum lokið um 10 þeirra. Alls hefur samningsafstaða Íslands í 22 köflum verið birt.

Hægt er að fylgjast með gangi aðildarviðræðna á heimasíðunni www.vidraedur.is.