*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 20. júní 2018 19:03

Ísland nefnt í 56.000 greinum um helgina

Þátttaka Íslands á HM er mikil landkynning og umfjöllun um Ísland á netinu hefur aukist til muna yfir mótinu.

Gunnar Dofri Ólafsson
epa

Landkynningin sem fylgir þátttöku Íslands á HM er gríðarleg,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins. „Við sjáum kannski ekki árangur hennar strax en þetta er enn ein fjöðrin í hattinn fyrir Ísland. Þegar netmiðlar gegna jafnmiklu hlutverki og raun ber vitni þá er slagkrafturinn í þeirra umfjöllun alveg með ólíkindum.“

Grímur segir gott dæmi um það vera hvernig sýnileiki Íslands muni að líkindum aukast með gríðarlegri fjölgun fylgjenda Rúriks Gíslasonar á Instagram, en fjöldi fylgjenda hans óx um mörg hundruð þúsund dagana eftir leikinn, mest meðal kvenna í Suður-Ameríku.

„Ég bíð bara eftir að Icelandair eða Wow air tilkynni um flug til Ríó eða einhverra af þessum stóru stöðum í Suður-Ameríku,“ segir Grímur og skellir upp úr. „Þeir sem höfðu áður áhuga á Íslandi fá örugglega meiri áhuga á Íslandi og þeir sem höfðu hann ekki fyrir fá hann örugglega við þetta. Spurningin er ekki endilega um að komast á kortið á fjarmörkuðum en heilt yfir er þetta gríðarlega jákvætt. Ég held að vítið hans Hannesar sé komið um allan heim,“ segir Grímur.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, segir að í aðdraganda mótsins hafi Íslandsstofa unnið töluverða heimavinnu sem ekki var unnin fyrir EM. „Það er auk þess gríðarlega mikil umfjöllun um Ísland á netinu. Við tókum saman tölur um helgina þar sem við bárum saman fjölda greina með tengingu við Ísland, annars vegar helgina 8.-10. júní og hins vegar um síðustu helgi. Fyrri helgina voru 14.000 greinar með Íslandstengingu birtar í Evrópu og Norður-Ameríku en 56.000 núna um helgina. Þetta segir okkur eitthvað.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð. Aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er: 

 • Framtíð stóriðju í Reykjanesbæ
 • Útblástur Kviku banka
 • Tjón framtakssjóðs af fjárfestingu í breskri tískuvöruverslun
 • Áhrif Airbnb á íbúðamarkað
 • Fjallað um útrás íslensks fyrirtækis
 • Viðtal við yfirframleiðanda eins vinsælasta tölvuleiks í heimi
 • Kostnaður fyrirtækja vegna nýju persónuverndarlöggjafarinnar
 • Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er í ítarlegu viðtali 
 • Sokkafyrirtæki sem stefnir á Evrópumarkað
 • Umfjöllun um íslensku krónuna
 • Óðinn skrifar um efnahagsástand á Íslandi
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um hákarlalista ríkisskattstjóra
Stikkorð: Ísland HM landkynning