Ágúst Einarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst og núverandi formaður stjórnar Framtakssjóðs Íslands, telur að fámenni Íslendinga sé ein helsta ástæða fyrir því ástandi sem varð uppspretta Framtakssjóðsins, það er efnahagshrunsins. Það sé sérstaða landsins sem varð betur ljós eftir að hrunið skall á. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Ágúst.

„Landsmenn eru einungis 320 þúsund og það er einfaldlega þannig að við höfum ekki mannskap til að manna allar þær stöður sem þarf til að halda góðum innviðum og eftirliti í nútíma samfélagi. Allt í kringum okkur er orðið mun flóknara en það var fyrir 15-20 árum. Auk þess búa ¾ hluta landsmanna á sama blettinum og slíkt búsetuhlutfall þekkist varla annars staðar í heiminum.“

„Ég hef sagt það áður að fjölga þurfi íbúum á Íslandi. Mín draumsýn er að hér búi til lengri tíma milljónir manna. Í sögunni eru dæmi um hraða uppbyggingu landa, í Bandaríkjunum byggðist landið hratt upp á 18. og 19. öld. Þangað fluttist fólk til gjöfuls lands og lagaði sig að landinu og málinu á einungis einni eða tveimur kynslóðum,“ segir Ágúst.

Fjölgun landsmanna er því einn mikilvægasti þátturinn í endurreisn landsins. „Ég hef af því áhyggjur að svo fámennt samfélag þoli ekki skell sem þennan. Þá á ég ekki endilega við efnahagsskellinn heldur persónuleg samskipti fólks. Það er erfitt að útkljá mál þegar nánast hver einasti einstaklingur þekkir til fórnarlambs eða geranda í þeim málum sem þjaka landið í dag,“ segir Ágúst og bendir á að Ísland er örþjóð. Þó að hér byggju tíu sinnum fleiri væru Íslendingar enn smáþjóð, langminnst Norðurlandanna. „En við eigum það til að gleyma þessu þegar við skoðum okkur í alþjóðlegu samhengi.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu