„Íslenska þjóðin á ekki að þurfa að líða að óþörfu fyrir ákvarðanir fyrrum eigenda Landsbankans né heldur reiði breskra stjórnvalda.“

Þetta er meðal þess sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í grein sem hann skrifaði nýlega og birtist í Financial Times.

Í greininni fjallar Gylfi um netreikninga sem íslenskir bankar buðu upp á erlendis. Reikningar eins og Icesave-reikningur Landsbankans hafi verið mjög hagkvæmir fyrir einstaklinga og fjölmargir hafi nýtt sér tækifærið og lagt sparifé sitt inn á slíka reikninga. Mestur var vegur Icesave í Bretlandi og í Hollandi.

Regluverk Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) gerir bönkum aðildarríkjanna kleift að bjóða upp á slíka reikninga í öðrum aðildarríkjum.

Í kjölfar þeirrar bankakrísu sem gekk yfir Ísland í síðustu viku eigi fjölmörg góðgerðafélög, háskólar, lögregluyfirvöld, slökkvilið sem og sveitarfélög í Bretlandi nú hættu á því að tapa þeim upphæðum sem lagt var inn á Icesave reikninga. Upphæðin nemur allt að einum milljarði sterlingspunda sem enn er óvíst hvort verði tryggt.

Gylfi segir að vel hefði mátt koma í veg fyrir þau ósköp sem nú ríði yfir. Eftirliti hafi verið ábótavant og lítið hafi verið gert til þess að takmarka starfsemi Icesave. Ástæða þeirrar miklu reiði sem bretar sýni með harkalegum viðbrögðum segir Gylfi vera það að bresk stjórnvöld hafi tapað gríðarlega á Icesave reikningunum í gegnum sveitarfélög og önnur læra sett yfirvöld.

Grein Gylfa Zoega má lesa hér.