Tollar á ýmsar landbúnaðarvörur verða felldir niður í viðskiptum milli Íslands og landa Evrópusambandsins (ESB) þegar samkomulag, sem undirritað var nýlega milli Íslands og ESB, öðlast gildi, en gert er ráð fyrir að það komi til framkvæmda hinn 1. janúar árið 2007. Þetta kemur fram í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.

Samkomulagið ætti að leiða til lægra verðs á innfluttum landbúnaðarafurðum á Íslandi um leið og það skapar ný sóknarfæri til útflutnings íslenskra landbúnaðarafurða.

Samkomulagið er gert á grundvelli 19. greinar samningsins um Evrópska
efnahagssvæðið sem kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með
landbúnaðarafurðir milli EFTA-ríkjanna innan EES annars vegar og ESB hins
vegar. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland og Evrópusambandið gera samkomulag á grundvelli fyrrnefndar greinar og leiddu utanríkisráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið viðræðurnar í sameiningu af hálfu Íslands.

Gert er ráð fyrir að tollar falli niður í viðskiptum landanna með ýmsar vörur er um getur í I. viðauka við EES-samninginn, en sá viðauki fjallar um landbúnaðarafurðir. Þá er miðað við að tollfrjáls lambakjötskvóti
Íslands hækki úr 1.350 tonnum í 1.850 tonn og að Evrópusambandið fái
tollfrjálsan kvóta til Íslands fyrir 25 tonn af kartöflum og 15 tonn af rjúpum.

Þá kveður samkomulagið á um gagnkvæma 15 tonna tollfrjálsa kvóta fyrir pylsur. Evrópusambandið fær sömuleiðis 20 tonna innflutningskvóta
fyrir osta til Íslands og Ísland 20 tonna innflutningskvóta fyrir smjör til ESB-landanna. Samkvæmt samkomulaginu falla tollar niður á vöruflokkum
eins og jólatrjám, frosnu grænmeti, þurrkuðum matjurtum, sætum
kartöflum og ávaxtasafa.

Innflutningstollar á lifandi hestum, hreindýrakjöti í heilum og hálfum srokkum, tómötum, agúrkum og vatni munu sömuleiðis verða felldir niður.
Heilbrigðisreglur koma þó áfram í veg fyrir innflutning á lifandi hestum. Einnig er gert ráð fyrir gagnkvæmum viðskiptum með blóm og plöntur, þó ekki afskorin blóm eða pottaplöntur undir einum metra á hæð.