Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, sat á dögunum þriggja daga ráðstefnu í Beirút í Líbanon, þar sem Ísland var kynnt fyrir þarlendum, sérstaklega með tilliti til þess hvernig Íslendingum hefði tekist að ná árangri sem lítil þjóð með stórveldi á borð við Evrópusambandið sem nágranna. "Þótt tengingin kunni að virðast langsótt, er margt líkt með þessum þjóðum, eins og mannfjöldi og samband þeirra við Evrópusambandið," segir Davíð Þór í samtali við The Daily Star í Líbanon. Ráðstefnan fór fram í Saint Joseph háskólanum í Beirút.

ESB beindi nýlega sjónum sínum að Líbanon og í síðustu viku kom ráðherra ytri tengsla og nágrannastefnu sambandsins, Benita Ferrero-Waldner, í heimsókn og lýsti yfir fullum stuðningi ESB við fyrirhugaðar og yfirstandandi umbætur Líbana í efnahagsmálum, stjórnmálum og á dómskerfinu.

Evrópusambandið lítur sennilega á Líbanon sem dyr að arabaheiminum," segir Davíð Þór við Daily Star. "Ísland hefur gert sérstakan samning við ESB, um hið evrópska efnahagssvæði, sem veitir því aðgang að innri markaði ESB án þess að vera meðlimur í sambandinu. Hver er þá ávinningurinn af því að ganga í það?" sagði Davíð og stakk að sögn blaðsins upp á að Líbanir reyndu svipaða aðferð.

Fulltrúi Líbanon á ráðstefnunni, prófessorinn og lögfræðingurinn Chibli Mallat, segir að Íslendingar hafi lagt áherslu á praktískar ástæður þess að ganga ekki í Evrópusambandið, á meðan umræður í Líbanon hafi snúist um hugmyndafræði. "Almennt séð eru tvær ríkjandi fylkingar í þessu máli. Önnur er fylgjandi inngöngu Líbanons í ESB vegna þess að þar er töluð enska og franska og þar er menningin með evrópskum blæ. Hin fylkingin lítur svo á að Líbanon tilheyri algjörlega hinum arabíska heimi."