Hætta er á að fyrirtæki í EFTA ríkjunum tapi samkeppnisstöðu gagnvart samkeppnisfyrirtækjum innan Evrópusambandsins ef Bandaríkin og ESB ljúka gerð fríverslunarsamnings sín á milli einsog nú er fyrirhugað án þátttöku EFTA ríkjanna. Þetta var rætt á fundum Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra með Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Norðmana og sömuleiðis á fundi Össurar og Trond Giske, utanríkisviðskiptaráðherra í opinberri heimsókn utanríkisráðherra í Noregi síðustu daga eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Norsku ráðherrarnir voru sammála íslenska utanríkisráðherranum um að nauðsynlegt væri fyrir EFTA ríkin að freista aðkomu að samningnum, annaðhvort með tvíhliða samningum eða gegnum EFTA,  og hafa aðkomu að samningagerðinni frá upphafi. Samþykkt var að ræða leiðir í þessum efnum frekar á vorfundi EFTA ráðherranna. Fagnaði Trond Giske frumkvæði íslenska ráðherrans í málinu, en Össur hafði áður óskað formlega eftir að EFTA-ríkin ræddu málið hið fyrsta, í kjölfar bréfs er hann ritaði áður John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, eftir fund með honum í Róm fyrir skömmu.