Sendiráð Íslands í Kína hefur, í samstarfi við Ferðamálaráð Íslands, Icelandair, Útflutningsráð, Scandinavian Airline Systems og fleiri aðila, unnið að því undanfarna mánuði að kynna Ísland sem áfangastað fyrir kínverska ferðamenn. Markmiðið er að fá ferðaskrifstofur til þess að bæta Íslandi við sem áfangastað í skipulögðum hópferðum þeirra til Norður-Evrópu og auka þannig ferðmannastraum frá Kína til Íslands.

Í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, kemur fram að engin markaður vex nú jafnhratt og sá kínverski. Gert er ráð fyrir að tæplega 20 milljónir Kínverja ferðist til útlanda á þessu ári. Þrátt fyrir að lítill hluti kínverskra ferðamanna fari enn sem komið er til Evrópu mun það breytast á næstu árum.

"Mikilvægt er að koma Íslandi á framfæri nú því fjölmörg fyrirtæki í ferðageiranum hér eru að skipuleggja ferðir og velja áfangastaði í Evrópu,"
segir Eiður Guðnason sendiherra í viðtali við Stiklur.

Að sögn Eiðs fengu 500-550 ferðaskrifstofur leyfi til þess að skipuleggja ferðir frá Kína til Íslands í kjölfar þess að ADS-samkomulag (Approved
Destination Status) milli Íslands og Kína, sem hann undirritaði fyrir hönd Íslands í apríl sl., var staðfest, en samkomulagið tók gildi 1. september. "Við
þurfum að fá 10-20 kínverskar ferðaskrifstofur til þess að bæta Íslandi við ferðir sínar til Evrópu og síðan að vinna vel með þeim fyrirtækjum að
áframhaldandi kynningu. Kínverski markaðurinn er stór og í hraðri þróun. Það er í raun einstakt tækifæri að hafa áhrif á þennan mikilvæga markað nú, en að sjálfsögðu óþrjótandi verkefni að kynna Ísland hér sem og á öðrum stöðum."

Kynningarnar, að þessu sinni, voru haldnar í Shanghai, Nanjing og Peking. Tríóið Guitar Islancio lék fyrir gesti og kynning á Íslandi fór fram í máli og
myndum. Alls komu u.þ.b 250 starfsmenn, sem starfa fyrir 100 ferðaskrifstofur, auk fulltrúa frá fjölmiðlum, varaborgarstjórar Shanghai og Nanjing og fulltrúi frá ferðamálaráðuneytinu í Peking. "Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland stendur eitt fyrir slíkum kynningum í Kína og því mjög ánægjulegt að sjá hve margir mættu," segir Magnús Bjarnason sendifulltrúi í Peking. "Við teljum að áhugi á Íslandi sé töluverður og þá líklega í tengslum við ferðir til Norðurlandanna, þar sem Kínverjar ferðast í hópum og heimsækja mörg lönd. Hinsvegar er það bæði dýrt og tekur tíma að bæta Íslandi við slíkar ferðir. Þess vegna reynum við að höfða til þeirra sem hafa
rúman tíma og rúm efni á hérlendan mælikvarða."

Judy Cao, sölustjóri Icelandair, er ánægð með árangurinn. ?Við fáum sífellt fleiri fyrirspurnir um Ísland og sala í Kína hefur margfaldast að undanförnu. Við erum samt rétt að byrja?, bætir hún við í viðtali við Stiklur. ?Sendiráð Íslands, Ferðamálaráð og aðrir hafa veitt okkur mikilvæga aðstoð við að koma kynningu á Íslandi af stað, t.d. með gerð vefsíðu á kínversku,
stuðlað að útgáfu á landkynningarbók um Ísland og með þátttöku í fjölmörgum atburðum sem miða að því að fá ferðaskrifstofur til þess að bæta Íslandi við áætlanir sínar, en það er forsenda fyrir sölu á ferðum
til Íslands í framtíðinni.? Steinn Lárusson, svæðisstjóri Icelandair í Asíu, segir að vöxtur í Kína hafi verið mikill á þessu ár. ?Við erum bjartsýn á
góðan árangur, en það tekur tíma að koma sér á kortið á þessum markaði þar sem samkeppnin er mikil, en hér er eftir miklu að slægjast.?