Í nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins sem birtist í gær kemur fram að Ísland færist upp um eitt sæti á milli ára í mælingum ráðsins á samkeppnishæfni þjóða. Ísland situr nú í 30. sæti listans.

Mælingarnar byggja á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda á vinnumarkaði í 144 löndum, en Nýsköpunarmiðstöð Íslands aflar gagna fyrir Alþjóðaefnahagsráðið sem síðan sér um úrvinnslu þeirra.

Í skýrslunni er Ísland skilgreint sem nýsköpunardrifið hagkerfi og segir að Ísland færist upp um eitt sæti vegna umbóta á sviði þjóðhagfræðilegra þátta og tilslakana á fjármálamarkaði.

„Mörgu ber að fagna í þessari niðurstöðu sem ef til vill markar að viðsnúningur geti nú blasað við í þessum efnum. Mikið verk er framundan að efla stöðu landsins. Ég fagna því að nýsköpunarumhverfi okkar nýtur viðurkenningar og hlakka til að hefja sóknina á ný til þess að endurheimta það sem glatast hefur,“ segir Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, aðspurður um niðurstöðu skýrslunnar.

Samkvæmt skýrslunni eru veikleikarnir enn sem fyrr veikur fjármálamarkaður, veik efnahagsstjórn, ónæg framleiðni á ýmsum sviðum og smæð heimamarkaðar. Núverandi staða gjaldeyrisviðskipta og aðgangur að fjármagni eru einnig meðal þeirra þátta sem draga úr samkeppnishæfni Íslands.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, telur stöðu Íslands á listanum ekki ásættanlega. „Það að standa í stað er ekki valkostur því að ef okkur á að takast að efla velferð og bæta hér lífskjör þá verðum við einfaldlega að efla nýsköpun á öllum sviðum mannlífs og stjórnsýslu.“