Ísland stendur í stað á milli ára í 59. sæti yfir efnahagsfrelsi ríkja heims, en einkunn ríkisins hækkar eilítið á milli ára.

Þetta kemur fram í árlegri samanburðarrannsókn yfir 70 hugveita í heiminum, þar með talið Cato og Fraser stofnananna í Bandaríkjunum. Meðal þátta sem skoðaðir eru í skýrslunni er hve fyrirferðarmikið ríkivsaldið er í efnahagslífi landanna, út frá útgjöldum, sköttum og ríkisstofnunum og -fyrirtækjum.

Einnig er lagaumgjörðin og hve tryggir eignaréttur er í ríkjunum, hve traustur gjaldmiðillinn er og hve frjáls verslun íbúa landsins er við umheiminn ásamt því hve frjáls reglugerðarumgjörðin er í landinu. Stigagjöf Íslands lækkar á milli ára, fer úr 7,25 stigum fyrir árið 2015 í 7,22 stig fyrir árið 2016 sem er viðmiðunarárið fyrir skýrsluna sem kemur nú út.

Samt sem áður heldur landið sæti sínu, sem er það 59, en árið þar áður hækkaði það úr því 64. og hafði þá klifið listann hægt og sígandi úr 102. sæti sem það endaði í árið 2010. Fyrir það hafði mælt efnahagsfrelsi á Íslandi hrunið hratt niður listann, eða úr 11. sæti fyrir tölur ársins 2007, en frá aldamótum hafði landið haldið sig á bilinu 8. til 13. sæti.

Bandaríkin hafa endurheimt stöðu sína meðal 10 efstu ríkjanna á listanum og haldið sig þar síðan 2016, en efstu tvö sætin verma Hong Kong og Singapúr. Næstu ríki eru í réttri röð Nýja Sjáland, Sviss, Írland, Bandaríkin, Georgía, Mauritius, Bretland, Kanada og Ástralía.