Geir H. Haarde, fjármálaráðherra situr nú ellefta ráðherrafund UNCTAD, ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, sem stendur yfir dagana 14. ? 18. júní 2004 í Sao Paulo í Brasilíu. Meðal ræðumanna á ráðherrafundinum voru Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu jóðanna, forsetar Brasilíu og fleiri ríkja í Suður Ameríku auk fjölda annarra ráðamanna víða að úr heimi.

Fjármálaráðherra tók í gær þátt í almennum umræðum og sagði m.a. að alþjóðasamfélagið hefði sýnt eindrægni í að kljást við fátækt og afleiðingar fátæktar sem birtist m.a. í ráðherrafundi UNCTAD, Doha viðræðunum í WTO, Monterrey samþykktinni og þúsaldarmarkmiðunum. Hvatti hann alla aðila til að virða þúsaldarmarkmiðin og vísaði til þess að
Ísland ráðgerði að auka framlög sín til þróunarmála. Doha samningaviðræðurnar um aukið frelsi í heimsviðskiptum, þar sem lögð er
sérstök áhersla á hagsmuni þróunarríkja sýndu eindreginn vilja ríkja heims til að nota viðskipti sem helsta tækið til að stuðla að hagþróun.

Ráðherrafundur UNCTAD væri ennfremur mikilvægt tækifæri til að skapa aukinn skilning á samspili þróunaraðstoðar og viðskipta. Íslensk
stjórnvöld hefðu á liðnu ári fellt niður tolla á nánast öllum vörum sem fátækustu ríki heims flyttu út. Við stefnumótun í þróunarmálum væri mikilvægt að hafa í huga séraðstæður einstakra landa og heimssvæða. Fjármálaráðherra benti á hlutverk UNCTAD í að stuðla að betri stjórnarháttum sem byggðu á lýðræði, virðingu fyrir mannréttindum, jafnræði, lögum og rétti. Einnig lagði hann áherslu á lykilhlutverk kvenna í að berjast gegn fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun.

Ráðherrafundurinn sem haldinn er á fjögurra ára fresti er sóttur af um 6000 fulltrúum 170 aðildarríkja. UNCTAD er einn helsti vettvangur Sameinuðu þjóðanna fyrir umræður um viðskipti og þróunarmál og miðar að því að tryggja hagsmuni þróunarríkja í alþjóðlegum viðskiptum og stuðla að efnahagslegri framþróun þeirra. Ísland hefur átt aðild að UNCTAD frá stofnun árið 1964.

Markmið ráðherrafundarins er að auka samræmi milli þróunaráætlana
ríkja og alþjóðlegrar efnahagsþróunar til að stuðla að auknum hagvexti og
hagþróun, sérstaklega í þágu þróunarlandanna. Á fundinum er rætt um
stefnumótun í þróunarmálum á tímum hnattvæðingar, leiðir til að efla
samkeppnisstöðu og framleiðslugetu þróunarríkja á alþjóðavísu, hvernig
tryggja megi betur að alþjóðaviðskipti efli þróun og samstarf á sviði
þróunarmála. Að auki er tilgangur ráðherrafundarins að ræða hlutverk og
umboð UNCTAD til næstu ára.

Fyrir ráðherrafundinn var fjármálaráðherra sérstakur ræðumaður á
ráðstefnu Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) um viðskipti, þróun og verkefni UNCTAD. Fulltrúar fjölda þjóðþinga sátu þá ráðstefnu ásamt þingforsetum Brasilíu og forseta suður-ameríska þingsins (Latin-American
Parliament). Einar K. Guðfinnsson, alþm., var fulltrúi Alþingis en hann er formaður nefndar Alþjóðaþingmannasambandsins um efnahagsmál og sjálfbæra þróun og hafði því forystu um undirbúning fundarins, við samningu ályktunar hans og var framsögumaður um hana á fundinum.