Miðað við hagspá sem ætlað er að meta áhrif hnattrænnar hlýnunnar á hagkerfi ríkja heimsins mun Ísland verða með lang hæstu landsframleiðsluna á mann árið 2100 og meira en helmingi hærri en öll önnur lönd en Finnland.

Á þetta bendir Oren Cass, fyrrum ráðgjafi forsetaframbjóðandans Mitt Romney, í aðsendri grein í The Wall Street Journal , þar sem hann gagnrýnir vinnubrögð rannsakendanna sem settu fram spánna.

Samkvæmt spánnisem Cass vitnar í verður landsframleiðsla Íslands á mann árið 2100 verður því 1,5 milljón dala en til samanburðar var hún rúmlega 50.000 dalir árið 2016. Jafnframt mun landsframleiðsla á mann í heiminum í  heild vera um 20% lægri en hún væri ef ekki kæmi til áhrifa af hnattrænni hlýnun.

Cass segir að rannsóknirnar byggist á gögnum sem gefi til kynna að hagvöxtur í heitum löndum sé minni þegar hitastig er óvenjulega hátt en á sama tíma sé meiri hagvöxtur í köldum þegar hitastig er óvenjulega hátt. Það sé hins vegar ótækt að nota slíkar rannsóknir til þess að spá fyrir um þróun langt inn í framtíðina þegar heimurinn verður talsvert heitari enda geri það lítið úr aðlögunarhæfni mannsins.