„Innlend eftirspurn var meginstoð vaxtar árið 2014 og naut góðs af hliðarverkunum ferðamannabylgjunnar árið 2013, en einnig mikilli aukningu á kaupmátti launa." Þetta segir í inngangi sérstaks kafla um Ísland í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um framtíðarhorfur í efnahagsmálum. Ísland er þar talið sem „umsóknarríki" (e. Candidate Country) að sambandinu ásamt þjóðum á borð við Serbíu og Svartfjallaland.

Þann 12. mars síðastliðinn sendi Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, bréf til ráðamanna í Evrópusambandinu. Ætlunin var að skýra áform Íslands hvað varðaði umsókn að ESB. „Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður," sagði meðal annars í bréfi Gunnars Braga.

Samþykktu bréfið 17. apríl

Skýrslan sem um ræðir var gefin út þann 21. apríl síðastliðinn, 40 dögum eftir að upphaflegt bréf Gunnars Braga var móttekið. Þann 17. apríl voru samþykkt drög að bréfi af ráðherraráði Evrópusambandsins , en þau voru í framhaldinu send til nefndar fastafulltrúa, sem var falið að samþykkja að bréfið skyldi sent. Þann 27. apríl síðastliðinn sendi Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem gegnir formennsu í ráðherraráði ESB, bréfið til Gunnars Braga. Í því kemur fram að ráðherraráðið „hafi farið vandlega yfir bréfið frá Gunnari Braga og að afstaða ríkisstjórnar Íslands sé tekin til greina."

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti sama dag kemur fram að utanríkisráðherra búist við því að Ísland verði í kjölfarið tekið af lista yfir umsóknarríki.