Ísland er nánast eina vestræna ríkið sem leggur stimpilgjald á öll skuldabréfaviðskipti, bæði veðskuldabréf og aðrar tegundir skuldabréfa. Í nágrannalöndunum takmarkast slíkur skattur almennt við fasteignaviðskipti. Þetta kemur fram í samantekt sem Samtök atvinnulífsins hafa látið gera. Ísland er einnig með sérstöðu í álagningu stimpilgjalds á útgáfu hlutabréfa. "Stimpilgjaldið dregur þannig úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs því keppinautar íslenskra fyrirtækja þurfa ekki að greiða slíkan skatt," segir í frétt á vef SA.

Hvað einstaklinga varðar leggst stimpilgjald einkum á þá í tengslum við fasteignakaup. Þannig má ætla að skatturinn sé í ríkum mæli borinn af ungu fólki sem er að koma sér upp eigin húsnæði í fyrsta sinn. Þar sem skatturinn veitir rétt til vaxtabóta er hann þó að hluta til endurgreiddur einstaklingum ári eftir að hann er innheimtur. Almennt þekkist ekki á hinum Norðurlöndunum að lagt sé á stimpilgjald í annað sinn í tengslum við endurfjármögnun lána.