Ársfundur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands var haldinn 15. mars síðastliðinn á Hilton Reykjavík. Fjölmenni var á fundinum en þar kynnti Nýsköpunarmiðstöð nýtt nafn og merki sem þróað hefur verið fyrir nýja hugsun: Siðvist. Með hugtakinu sameinast siðferðisleg og vistvæn hugsun í atvinnulífinu þar sem fyrirtæki landsins eru hvött til grænkunar.

Oddný Harðardóttir, fjármála- og iðnaðarráðherra, ávarpaði gesti við setningu fundarins auk þess sem fjöldi starfsmanna flutti fréttir af verkefnum sínum. Á fundinum kynnti Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, jafnframt niðurstöður rannsóknar sem unnin var á þeirra vegum í fyrrasumar.

Samkvæmt niðurstöðunum eru rúmlega 80% frumkvöðla á fjórum frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar með háskólapróf. 35% fyrirtækjanna stefna strax á heimsmarkað og ríflega 70% hafa þegar náð settum markmiðum eða eru skammt frá því að ná þeim.