Seðlabankar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa gefið út skýrslu um norræn bankakerfi en skýrslan var samin á ensku og er samvinnuverkefni allra seðlabankanna.

Í skýrslunni er fjallað um hlutverk bankakerfa Norðurlandanna og veittar upplýsingar um bankakerfi hvers lands fyrir sig, s.s. um arðsemi, eiginfjárhlutföll og skilvirkni.

Einnig eru samstæður stórra norrænna banka bornar saman í ljósi þess að samruni yfir landamæri getur torveldað mat á tölum um bankakerfið. Jafnframt er fjallað um tæknivæðingu bankakerfisins og væntanlegar framtíðarhorfur auk þess sem ítarlegur tölfræðiviðauki fylgir skýrslunni.

Í skýrslunni kemur fram að Ísland skeri sig nokkuð úr í norræna bankaumhverfinu. Alls staðar sé hlutfall eigna bankanna meira en verg landsframleiðsla, en á Íslandi er hlutfallið hæst eða 4,3. Hátt hlutfall eigna miðað við verga landsframleiðslu er skýrt með aukningu lána og erlendum fjárfestingum.

Í skýrslunni kemur fram að almenningur hafi notið góðs af samkeppni bankanna og eftirspurn eftir lánum hafi aukist.

Starfsmönnum bankanna fer fækkandi í öllum norðurlöndunum nema á Íslandi. Fjölgun bankastarfsmanna á Íslandi hefur orðið vegna þenslu bankanna á innlendum sem og erlendum mörkuðum, segir í skýrslunni.

Samþjöppun er hvergi meiri en á Íslandi, en samkvæmt CR5 vísitölu sem reiknar markaðshlutdeild fimm stærstu banka hvers lands (þar með talin erlend dótturfyrirtæki íslensku bankanna), er samþjöppunarstuðull á Íslandi er yfir 90%, samanborið við tæp 50% í Noregi, sem er með lægsta hlutfallið.