Íbúðalánasjóður stóð nýverð fyrir fundi þar sem meðal annars var fjallað um íslenska leigumarkaðinn og óhagnaðardrifin leigufélög. Á fundinum kom meðal annars fram að Ísland skeri sig úr hvað varðar hlutfall ungs fólks sem býr enn í foreldrahúsum.

Fram kom að um 14% þessa hóps býr enn hjá foreldrum en hlutfallið á hinum Norðurlöndunum er í kringum 6% samkvæmt tölum frá Eurostat.

Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðar hjá Íbúðalánasjóði, segir að hér á landi skorti skýr viðmið hvað sé sanngjörn og eðlileg leiga og bendir jafnframt á að lög hér á landi kveði á um að leiga hér á landi skuli vera sanngjörn og eðlileg fyrir báða aðila.

Hún segir jafnframt að skoða þyrfti hvort heimfæra megi leiðir sem gagnast hafa í nágrannalöndunum yfir á íslenskan leigumarkað. Hún nefnir sem dæmi að í Noregi séu leigusamningar ekki gerðir til skemmri tíma enn til þriggja ára og almenna reglan þar sé að leiga sé ekki hækkuð nema í tengslum við vísitölubreytingar og þá yfirleitt aðeins einu sinni á ári. Hún nefnir einnig að í Svíþjóð starfi öflug samtök leigjenda sem semji einu sinni á ári við leigusala fyrir hönd leigjenda.