Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarmálaráðherra skrifaði í dag, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein, undir samning við Bretland vegna útgöngu þess út úr Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu.

Tryggir samningurinn áframhaldandi gagnkvæm réttindi Íslendinga og Breta sem búa í hinu landinu ásamt því að engar breytingar verða á sambandi ríkjanna til loka árs 2020 meðan á aðlögunartímabilinu stendur.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um gengur Bretland úr Evrópusambandinu föstudaginn komandi 31. janúar á grundvelli útgöngusamnings við sambandið, en samningur EFTA ríkjanna og Bretlands leysir úr útgönguskilmálum milli ríkjanna með sambærilegum hætti og gagnvart sambandinu.

Í framhaldinu meðan á aðlögunartímabili stendur mun Ísland, sem og hin EFTA og ESB ríkin hefja samningaviðræður við Bretland um framtíðarsamkipti ríkjanna. Samkvæmt vef stjórnarráðsins er nú verið að skoða möguleika á samstarfi EFTA ríkjanna innan EES um viðræðurnar.

Þar segir jafnframt að mikill vilji ríki í bæði Bretlandi og á Íslandi að tryggja áfram náin tengsl og hagstæð viðskipti ríkjanna, en haft er eftir utanríkisráðherra að áfanginn sem náðist í dag sé afar þýðingarmikill.

„Ljóst var frá upphafi að margt sem Bretar og ESB sömdu um varðandi útgönguna ætti einnig við um okkur vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þetta þýðir að við stöndum jafnfætis aðildarríkjum ESB þegar kemur að því að leysa úr þessum málum,“ segir Guðlaugur Þór sem segir undirritunina marka nýjan og skemmtilegan fasa.

„Nú þegar gengið hefur verið frá útgöngunni sjálfri mun Bretland geta hafið viðræður um framtíðarsamband sitt við önnur ríki. Við erum vel í stakk búin fyrir framtíðarviðræður okkar við Bretland og hlökkum til að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Markmið okkar er að gera nýjan samning sem tryggir langvarandi tengsl ríkjanna, þar á meðal á sviði viðskipta.“