Íslendingar skulda Bretum um 2,2 milljarða breskra punda vegna Icesave reikningana í Bretlandi.

Frá þessu er greint á vef breska blaðsins The Independent en blaðið segir breska fjármálaráðuneytið hafa gefið upp töluna í dag.

Þá rifjar blaðið upp að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands hafi lofað því að innistæðueigendur Icesave reikninganna myndu fá innistæður sínar endurgreiddar eftir að Landsbankinn, eigandi Icesave var tekinn yfir af íslenskum yfirvöldum.

Talsmaður Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands segir í samtali við The Independent að nú sé unnið að áætlun til að endurgreiða upphæðirnar.

„Þetta eru peningar sem þeir skulda okkur eftir hrun íslenska bankakerfisins,“ hefur The Independent eftir honum.

Þá kemur fram í umfjöllun The Independent að eftir að íslensk yfirvöld hafi lofað því að tryggja 18 þúsund pund hafi gengið greiðlega að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Blaðið segir að þar á undna hafi íslensk stjórnvöld hótað því að ábyrgjast aðeins innistæður innanlands (á Íslandi).

Sjá umfjöllun The Independent .